Samkomulag um samstarf

Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hafa gert með sér samstarfssamning um meirihlutasamstarf um stjórnun Sveitarfélagsins Skagafjarðar kjörtímabilið 2010 – 2014 og birtist í Feyki sem kom út í morgun.

Þar segir að Skagafjörður sé samfélag  sem  hefur alla burði til að vaxa og þróast áfram á jákvæðan hátt. Megin markmið í samstarfi flokkanna er að stuðla að þessari þróun. Flokkarnir munu leggja áherslu á gott samstarf við aðra flokka í sveitarstjórninni, íbúa og atvinnulíf. Heiðarleg vinnubrögð, traust og jákvæðni verða leiðarljós starfsins ásamt einfaldari stjórnsýslu og jafnræði íbúanna.

Á meðal helstu verkefna samstarfsins eru 5 fyrstöldu atriðin eftirfarandi:

•          Áhersla  verður lögð á að eiga gott samstarf við fulltrúa annarra flokka í sveitarstjórninni, starfsfólk sveitarfélagsins og íbúa Skagafjarðar.

•          Unnið verði að hagræðingu og sparnaði í rekstri sveitarfélagsins og hallalausum rekstri m.a. verði skipuð nefnd til að fara yfir leiðir að þeim markmiðum.

•          Hafist verði handa við viðbyggingu og endurbætur á  Árskóla.  Verkinu verði áfangaskipt og þannig skapast svigrúm til að endurmeta verkefnið á hverjum tíma. Samkomulag er um að endurskoða hluta af hönnun byggingarinnar og skipulag umferðarmannvirkja og skólalóðar. Leitast verði við að skerða ekki núverandi íþróttasvæði.

•          Standa þarf vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins og þjónustu á öllum skólastigum í héraðinu. Flokkarnir eru sammála um að halda áfram skólastarfi í Fljótum og taka tillit til vilja foreldra og annarra íbúa á svæðinu í þeim efnum.  Áfram verði haldið úti öflugu skólastarfi í  grunnskólum héraðsins.

•          Unnið skal að því með heimamönnum að leysa íþróttahússmál á Hofsósi.

Listinn er birtur óskertur í Feyki en meðal þess sem tekið er fram er uppbygging ferðaþjónustu, Árskóla og hestamennsku svo eitthvað sé nefnt auk ráðningu sveitarstjóra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir