Samfylkingin og ég ... | Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir skrifar

Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir er á lista Samfylkingar. AÐSEND MYND
Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir er á lista Samfylkingar. AÐSEND MYND

Ég trúi því að Samfylkingin sé með gott plan og ætli að fylgja því eftir komist hún í ríkisstjórn. Samfylkingin sem slík gerir þó ekki marga hluti, heldur fólkið sem hefur ákveðið að starfa undir hennar hatti. Þessi hópur, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, hefur sett sér markmið um ýmsa málaflokka sem sjá má á heimasíðu flokksins. Skoðum örfá alvöru dæmi.

Samfylkingin leggur áherslu á að allir landsmenn fái fastan heimilislækni. Þannig er staðan ekki í dag á Íslandi. Sveitungar mínir, Skagfirðingar eru heppnir. Hér hafa sest að góðir heimilislæknar sem nokkrir eiga auk þess rætur í Skagafjörð. Þeir fluttu aftur heim eftir nám og settust hér að. Það er því algjör lúxus að geta farið til síns fasta læknis ár eftir ár, án þessa að þurfa í hvert sinn að fara yfir alla sjúkrasöguna. Það er spurning hvort ekki megi læra eitthvað af því hvernig staðan er í Skagafirði þegar kemur að heimilislækningum. Samfylkingin vill að fólk upplifi öryggi í sínu daglega lífi og geti treyst á heilbrigðisþjónustu í sínu nærumhverfi og hefur því sett sér markmið hvað varðar heilbrigðismálin.

Samfylkingin vill þjóðarátak í umönnun eldra fólks. Þá dettur mér í hug hann pabbi minn. Pabbi varð níræður í sumar. Frá unglingsaldri hefur hann unnið hörðum höndum. Hann lærði múraraiðn og starfaði við fagið í áratugi. Hann var um tíma kokkur á sjó og seinni hluta starfsævinnar vann hann hjá hinu opinbera suður í Reykjavik. Pabbi minn þráir að komast á heimili þar sem hann getur verið innan um fólk á sínu reki og fengið þjónustu sem hæfir honum. Pabba finnst líka að hann eigi rétt á því að komast í skjól. Níræður pabbi minn, sem er orðinn veill til heilsunnar, má láta sig hafa það að búa einn vegna þess að kerfið vill ekki taka við honum. Hann tikkar ekki í nógu mörg box til að komast inn á heimili fyrir aldrað fólk. Hann er ekki nógu lasinn fyrir kerfið. Þrátt fyrir þetta er pabbi heppinn maður. Hann á börn, sem eru duglega að líta til hans og hann á góðan vin í næstu íbúð sem hann hittir á hverju kvöldi og vinurinn, hann er fjórum árum eldri en pabbi. Það eru ekki allir svona heppnir.

Samfylkingin vill öruggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Þegar ég hugsa um þetta markmið þá leitar hugurinn 30 ár aftur í tímann. Ég hugsa til konunnar sem var tiltölulega nýflutt á Krókinn og gekk með sitt fjórða barn. Stóri dagurinn rann upp og bóndinn skutlaði konunni upp á spítala. Til að gera langa sögu stutta þá kom í ljós að blessað barnið var í sitjandi stellingu og auk þess var ljóst að það var nokkuð stórt. Það voru sex dagar til jóla og úti var norðan hríð. Það var því ekkert ferðaveður og konan áttaði sig vel á því, enda hafði hún reynslu frá árinu áður, þegar hún var flutt með sjúkrabíl í vitlausu veðri til Akureyar eftir fótbrot og auk þess komin á steypirinn. Hún hafði ekki áhuga á að upplifa þá ferð aftur. Konan spurði læknana hvort ekki væri hægt að taka barnið með keisaraskurði. Eftir langa registefnu læknanna á Króknum var ákveðið að verða við ósk konunnar. Þessi kona er auðvitað ég sjálf. Hvers vegna er ég að ryfja þessa lífsreynslu upp? Jú, fyrir rúmlega 30 árum var hægt að gera svona stóra aðgerð á konu, sem átti í erfiðleikum með að fæða barn, hér heima í héraði. Fjórir af fimm læknum sjúkrahússins voru viðstaddir ásamt hjúkrunarfólki; tveir skurðlæknar, einn sem sá um að deyfa konuna og annar sem sá um barnið. Frammi á gangi sátu tveir blóðgjafar „á fæti“ tilbúnir að gefa konunni blóð ef á þyrfti að halda. Til að ljúka sögunni þá fór allt vel. Konan dvaldi yfir jólin á spítalanum í góðu yfirlæti heilbrigðisstarfsfólks. Það er erfitt að setja sig í spor ungra kvenna í dag, sem við svona aðstæður þurfa að reiða sig á að gott heilbrigðisstarfsfólk og sjúkraflutningamenn og konur komi þeim heilu og höldnu á næsta sjúkrahús sem er á Akureyri. Veður og færð spila að sjálfsögu þarna inn í líka. Það fæðast ekki öll börn yfir sumartímann og fólk veikist á öllum tímum ársins. Þannig að það má færa rök fyrir því að hluta heilbrigðisþjónustunnar hafi farið aftur hér í Skagafirði frá því fyrir rúmlega 30 árum. Ég treysti Samfylkingunni til að skoða hvaða leiðir við getum farið til að gera heilbrigðiskerfi okkar landsmanna enn öruggara.

Menntamál eru byggðamál. Hverjar eru áherslur Samfylkingarinnar í menntamálum? Lykilþáttur í samfélagssýn jafnaðarstefnunnar er menntakerfi sem tryggir öllum tækifæri. Við vitum að góð menntun veitir lífsfyllingu og eflir sjálfstraust. Samfylkingin vill beita sér fyrir jöfnum tækifærum allra til náms. Menntastofnanir eiga að vera aðgengilegar, þær eiga að vera vettvangur þar sem enginn hópur er skilinn eftir. Hér á Norðurlandi vestra eru leik- og grunnskólar í öllum þéttbýliskjörnum. Framhaldsskóli er á Sauðárkróki og Háskólinn á Hólum er, já eins og allir vita, á Hólum í Hjaltadal. Það má ekki gleyma því að fimmta stoð menntakerfisins á Íslandi eru fræðslu- og símenntunarmiðstöðar um allt land. Fullorðins- og framhaldsfræðslan á sinn fulltrúa á Norðurlandi vestra. Ég er auðvitað að tala um Farskólann – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra. Það er efni í aðra grein að fjalla um þann skóla sem hefur til dæmis aðstoðað fullorðið fólk við að klára iðnmenntun sína með því að kenna almennar bóklegar greinar eða boðið fullorðnu fólki upp á raunfærnimat til styttingar á námi og náms- og starfsráðgjöf.

Þegar fyrrverandi ríkisstjórn tók við völdum þá var eitt hennar fyrsta verk að skipta menntamálunum niður á þrjú ráðuneyti. Það má því segja að hver samstarfsflokkanna hafi átt sér sinn eigin menntamálaráðherra. Þennan gjörning þarf að endurskoða og koma í framhaldinu á fót öflugu ráðuneyti menntamála. Ég treysti Samfylkingunni best til að takast á við eitt mikilvægasta verkefni hverrar ríkisstjórnar; menntamálin. Samfylkingin vill tryggja jöfn tækifæri og möguleika allra landsmanna óháð búsetu til menntunar og ég endurtek; ég treysti henni vel í verkefnið.

Á morgun verður Samfylkingin með opið hús á Kaffi Krók á Sauðárkróki og býður upp á morgunkaffi. Dagurinn verður tekinn snemma eða klukkan 10. Formaður flokksins, Kristrún Frostadóttir, mætir ásamt því góða fólki sem skipar efstu sæti listans í Norðvesturkjördæmi eða þeim Hannesi Jónssyni, Jóhönnu Ösp Einarsdóttur og Magnúsi Vigni Eðvaldssyni. Ég hvet alla sem geta til að mæta og taka samtalið. Við hlökkum til að sjá sem flesta.

Bryndís Kristín Williams Þráinsdóttir,
sem skipar 7. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir