Saga Þuríðar Hörpu Kafli 3
Við hófum á dögunum að fylgjast með sögu Þuríðar Hörpu hér á Feyki en Þuríður bloggar á síðu sinni oskasteinn.com. Í dag birtum við kafla þrjú í sögu Þuríðar og minnum á á sala óskasteinanna er hafin.
Ég vaknaði seinni partinn eða undir kvöld minnir mig, man lítið nema ég var á gjörgæslu og mikið af blikkandi tækjum og snúrum allt í kring og annað slasað fólk í næstu rúmum. Hvítir englar komu reglulega til mín skoðuðu tækin og töluðu til mín. Önnur nóttin á spítalanum leið, ég rankaði við mér öðru hvoru en veit ekki hversu oft, finnst þó að ég hafi þjáðst af uppköstum og ógleði sem stafaði líklega af morfíni. Daginn eftir var ég færð inn á einstaklingsstofu þar sem gjörgæslan var full. Mér leið ágætlega en var svoldið verkjuð, skurðlæknirinn kom og talaði við mig og sagði mér að aðgerðin hefði heppnast vel. Hann hefði þurft að fjarlægja beinbrot úr 7 hryggjarlið og búa þannig um að hryggjarliðurinn fylltist aftur af beini (skrifa þetta bara eins og ég skyldi það) síðan hefði þurft að spengja yfir 5 hryggjarliði þ.e. frá 5. til 9. Ég gerði mér enga grein fyrir því þá að hér eftir yrði bakið á mér stífur klumpur með litla sem enga sveigju. Læknirinn sagði mér líka að mænan hefði ekki verið í sundur heldur mikið marin. Hann sagði að lokum að litlar líkur væru á því að ég gæti gengið aftur. En næstu mánuðir mundu skera úr um það þar sem bati kæmi í ljós í allt að ár eftir slys. Svona minnir mig að hann hafi sagt þetta, ég tók strax út setninguna að batinn kæmi í ljós á næstu mánuðum, ég var alveg viss um að það myndi gerast hjá mér, batinn kæmi hægt og sígandi, ég sem var svo heilsuhraust, varla orðið misdægurt um æfina, auðvitað færi ég á fætur. Ég lá alveg flöt og þoldi ekki að hafa kodda undir höfðinu, mér fannst best að setja hendurnar upp fyrir höfuðið þannig náði ég bestri öndun því rifbeinin sem brotnuðu gerðu mér eitthvað erfiðara að anda. Með jöfnu millibili komu hjúkrunarfræðingarnir og sprautuðu morfíni í æð við viðbeinið á mér en þar hafði verið settur æðaleggur (held það heiti það). Mér varð strax meinilla við morfínið það olli mér ógleði og svo þoldi ég ekki hvernig æðarnar þöndust út í hálsinum á mér eftir sprautuna ég fékk líka óbragð í munnin af því. Ég fékk alltaf lyf við ógleðinni þannig að ég kastaði ekki upp. Annars lá ég bara í móki og talaði við Árna sem sat hjá mér alltaf þegar ég opnaði augun.
Framhald seinna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.