Saga hrossaræktar – samantekt og fyrstu skrefin :: Kristinn Hugason skrifar

Á flengireið yfir á við Heklurætur. Myndin er tekin árið 1890 og er ein elsta ljósmynd tekin á Íslandi af hestum og reiðmönnum. Á þessum tíma var að auki mjög fátítt að taka mynd af fákum og reiðmönnum á ferð. Mynd úr bókinni Íslenski hesturinn, Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson o.fl., útg. MM og SÍH, 2004. Ljm.: Ljm.safn Reykjavíkur, Tempest Anderson.
Á flengireið yfir á við Heklurætur. Myndin er tekin árið 1890 og er ein elsta ljósmynd tekin á Íslandi af hestum og reiðmönnum. Á þessum tíma var að auki mjög fátítt að taka mynd af fákum og reiðmönnum á ferð. Mynd úr bókinni Íslenski hesturinn, Gísli B. Björnsson, Hjalti Jón Sveinsson o.fl., útg. MM og SÍH, 2004. Ljm.: Ljm.safn Reykjavíkur, Tempest Anderson.

Í síðustu grein minni hér í Feyki, þeirri fyrstu í haust og í nýjum greinaflokki um sögu hrossakynbóta hér á landi, ræddi ég um uppruna hrossanna hér á landi – landkynsins sem eitt er til í landinu, hefur varðveist hér hreinræktað með svo gott sem náttúruúrvalið eitt sem ræktunarafl lengi vel en nú síðustu hundrað árin eða svo notið stigvaxandi skipulegrar ræktunar.

Þetta kyn þekkjum við í dag sem íslenska hestinn og er kunnur um lönd og álfur. Á Norðurlöndunum kallaður Islandshesten, með ögn misjöfnum rithætti á milli landa, í hinum enskumælandi heimi The Icelandic Horse og á þýska málsvæðinu Island pferd. Það að íslenski hesturinn skuli þannig hvoru tveggja vera kenndur við land okkar Ísland og kallaður hestur en ekki smáhestur (pony) eins og áður var, er mikill virðingarvottur.

Í gegnum áratugina má segja að hann hafi unnið sér sess sem hestur á meðal hesta einkum í gegnum þá áherslu sem lögð hefur verið á hestaíþróttir og rakið hefur verið áður í greinaflokknum en einnig fyrir tilstuðlan markvissra rannsókna, einkum í kynbótafræði og kynntar hafa verið á alþjóðlegum vettvangi; á ráðstefnum og í fagtímaritum. Í þeim skrifum er hesturinn iðulega kallaður Icelandic toelter horse og þá lögð áhersla á það sem hefur þótt vera hans aðalsmerki, töltið. Staðreyndin er þó svo að ganghestar eru æði margir til í heiminum þó þrígeng hross séu algengust; fet, brokk og stökk, þ.e. grunngangtegundirnar þrjár sem öll hross búa yfir.

Skeiðhestar og töltarar eru svo og til en alhliðahross, þ.e. hross sem hafa hæfni á öllum fimm gangtegundunum eru sjaldgæf. Þar er íslenski hesturinn sterkur. Á tíunda áratug síðustu aldar ávannst svo að auki að Ísland var með formlegum hætti viðurkennt á alþjóðavettvangi sem upprunaland íslenska hestsins. Vel má vera að það þyki ögn kostulegt að alþjóðlega þurfi að afla viðurkenningar á því hvaðan hesturinn okkar sé kominn, þ.e. frá Íslandi en svo er ekki í raun þegar í huga er haft hversu mikið hesturinn hefur dreifst um lönd og álfur, hversu víða hann er ræktaður og hve mörg hross af íslenskum stofni eru til erlendis.

Víða um heim er með mikilli fyrirhöfn og ærnum tilkostnaði staðið í að vernda gömul landkyn frá útrýmingarhættu. Það frábæra starf sem unnið hefur verið við að finna íslenska hestinum nýtt hlutverk og aðlaga hann því með skipulögðu ræktunarstarfi er mikið afrek í virkri stofnvernd. Hesturinn ver tilvist sína þannig sjálfur með því að vera sá sem hann er. Full mikið sagt, að vera lengur þarfasti þjóninn en eigi að síður í mikilvægu hlutverki sem fyrr en nýju. Sú saga verður rakin í komandi greinum.

Fyrsti vísir að hrossakynbótastarfi
Í greininni sem birtist hér í blaðinu 1. september sl. var rakið hvernig fyrsta hvatning til hrossakynbóta var samtvinnuð upplýsingastefnunni en megin boðberar stefnunnar hér á landi, feðgarnir Ólafur Stefánsson [Stephensen] og Magnús [Ólafsson] Stephensen birtu fyrstu fræðslu og hvatningaskrefin í þessa átt, árin 1788 og 1825. Klukka framfaranna tifaði ekki hratt á þessum tímum hér á landi þó hún væri nú tekin að auka í eftir margra alda kyrrstöðu. Það var því ekki fyrr en árið 1879 sem það fyrsta birtist sem segja má að svari hvatningarorðum Stephensenanna er það samþykkt sýslunefndar Skagafjarðar; „frumvarp til reglugerðar, um að bæta kynferði búpenings í Skagafjarðarsýslu.“

Þetta er talin fyrsta búfjárræktarsamþykktin hér á landi. Strax árið á eftir, þann 29. maí 1880 var svo haldin sýning á búfé o.fl. í Reynistaðarrétt, hér er um að ræða fyrstu sýninguna af slíkum toga hér á landi, eftir því sem heimildir gerst hljóða. Úr landssjóði kom 200 kr. styrkur til sýningarinnar og fóru 110 kr. í verðlaunafé, hæsti verðlaunaflokkurinn var fyrir hryssur: 10 kr., hrútar, kýr og graðfolar 8. kr. en naut og ær ekki nefnd til verðlauna. Ýmsar hræringar; félagsstarf og stofnun svk. kynbótabúa urðu svo víðar um Norðurland næstu áratugina en ekkert skipulegt framhald sýningahalds.

Fyrr í skrifum mínum hér í Feyki gat ég um fyrstu eiginlegu tilraun manna til að vekja athygli á íslenska reiðhestinum, „hraða hans og keppnishörku“, eins og það var orðað, sem fór fram á Oddeyri á Akureyri þjóðhátíðarárið 1874 og um svokölluðu Melakappreiðar í Reykjavík sem voru haldnar flest árin 1897 til 1909. Vissulega var slík viðleitni hvatning til eflingar ræktunarstarfsins, því þá þegar sáu sífellt fleiri og fleiri, að vel kynjuð, vel tamin og meðfarin hross stóðu hinum framar. Samanber hvatningargrein Magnúsar Stephensen frá 1825, um að „bægja frá bikkjukyninu“ og fá séð „nýtt og gjörfulegt gæðinga- og vinnuhestakyn upp spretta í voru landi“, eins og hann komst að orði.

Fyrstu lög um kynbætur hrossa voru sett á Alþingi 1891, tóku síðar ýmsum breytingum. Þannig var lögfest bann við lausagöngu stóðhesta árið 1901 og hert á því banni árið 1926. Fyrstu heildarlög um búfjárrækt voru samþykkt árið 1931 (lög nr. 32/1931). Þau lög tóku ýmsum breytingum í gegnum áratugina og verða þær raktar í skrifum þessum eftir því sem máli skiptir upp á heildarframvinduna. Nú er starfað eftir heildarlögum – búnaðarlögum nr. 70/1998, með síðari breytingum.

Búnaðarfélag Íslands var stofnað árið 1899 en forveri þess var Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélag, stofnað 8. júlí 1837 og er sá dagur skráður sem stofndagur landbúnaðarsamtaka á Íslandi. Búnaðarfélag Íslands átti langa og glæsilega sögu og á eftir að koma mikið við sögu í skrifum þessum. Bændasamtök Íslands urðu svo til við samruna BÍ og Stéttarsambands bænda árið 1995. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. (RML) tók til starfa þann 1. janúar 2013 og er einkahlutafélag í 100% eigu Bændasamtakanna. Með því má segja að Búnaðarfélag Íslands eða öllu heldur spegilmynd þess sé komin að nýju inn á völlinn en með allt annan lagagrundvöll og stofnanalega stöðu en áður var.

Niðurlagsorð
Fyrsta hrossaræktarfélagið: Hrossaræktarfélag Austur-Landeyja var stofnað 1904, þau voru síðan stofnuð hvert af öðru. Er hér um að ræða upphaf mikillar sögu, enda runninn upp ný öld. Öld umbrota og framfara, eða eins og stórskáldið, athafna- og hestamaðurinn Einar Benediktsson orðaði það í lokaorðum kvæðis síns Aldamót; „Lát snúast tímans tafl, / tuttugasta´öld.“
Umfjölluninni verður framhaldið í næsta þætti.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins.

Áður birt í 38. tbl.  Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir