Saga hrossaræktar – reiðhrossamarkaðir erlendis :: Kristinn Hugason skrifar

Reiðsýningar hafa allt frá upphafi markaðssetningar íslenska hestsins skipað háan sess; hvort sem um er að ræða þátttöku í stórum hestasýningum, almenna kynningu á hestinum til fróðleiks og skemmtunar eða hreinar og klárar sölusýningar. Þannig var efnt til reiðsýningar í Ásbyrgi í tilefni af ársfundi sjávarútvegs-, landbúnaðar- og matvælaráðherra Norðurlandanna sem fram fór hér á landi í ágúst 2004. Á myndinni eru frá vinstri talið: Kristinn Hugason á Boðna frá Ytra-Dalsgerði, Sigurbjörn Bárðarson á Sörla frá Dalbæ II, Elsa Albertsdóttir á Gusti frá Syðra-Vallholti, Árni Björn Pálsson á Brjáni frá Hamrahlíð, Erlingur Ingvarsson á Ísidór frá Árgerði og Silvía Sigurbjörnsdóttir á Kára frá Búlandi. Ljm.: Axel Jón Birgisson.
Reiðsýningar hafa allt frá upphafi markaðssetningar íslenska hestsins skipað háan sess; hvort sem um er að ræða þátttöku í stórum hestasýningum, almenna kynningu á hestinum til fróðleiks og skemmtunar eða hreinar og klárar sölusýningar. Þannig var efnt til reiðsýningar í Ásbyrgi í tilefni af ársfundi sjávarútvegs-, landbúnaðar- og matvælaráðherra Norðurlandanna sem fram fór hér á landi í ágúst 2004. Á myndinni eru frá vinstri talið: Kristinn Hugason á Boðna frá Ytra-Dalsgerði, Sigurbjörn Bárðarson á Sörla frá Dalbæ II, Elsa Albertsdóttir á Gusti frá Syðra-Vallholti, Árni Björn Pálsson á Brjáni frá Hamrahlíð, Erlingur Ingvarsson á Ísidór frá Árgerði og Silvía Sigurbjörnsdóttir á Kára frá Búlandi. Ljm.: Axel Jón Birgisson.

Í síðustu grein var gerð grein fyrir þróun hrossamarkaðanna innanlands og til útlanda fram á miðja síðustu öld, í greininni kom m.a. fram að á tímabilinu 1850 – 1949 fóru samtals 150.400 hross utan. Að stofni til var um að ræða unghross alin upp í stóði og af mjög breytilegum gæðum, flest voru nýtt sem vinnuhross; í námum Bretlandseyja, hjá dönskum smábændum m.a. og þá í fjölþættri vinnu eða sem lipur reiðhross, t.d. fyrir krakka á leið í skólann eða fyrir ráðsmenn og aðra verkstjórnendur á búgörðum. Sum náðu svo enn lengra og voru jafnvel seld af landinu sem úrtöku reiðhross. Enda var þá þegar orðin töluverð reiðhestaeign í landinu; hafði raunar alltaf verið nokkur en fór vaxandi, m.a. við það að velmegandi hestelskum borgurum fjölgaði.

Í ljósi þessa þarf engum að koma á óvart að hlutur reiðhrossa í útflutningnum á meðan að uppistaða hans voru vinnuhross hafi verið allnokkur og vaxandi en eiginleg vinnuhross hurfu svo alveg af útflutningsskránum fyrir 1950. Síðasti stórútflutningur á þeim var til Póllands eftir stríðið og má fræðast um þá sögu í starfssöguhluta 1. bindis Ættbókar og sögu íslenska hestsins á 20. öld eftir Gunnar Bjarnason, sem út kom hjá Bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri árið 1968, sjá bls. 88 til 97. Það er ævintýraleg frásögn í hinum einstaka stíl Gunnars Bjarnasonar, ef svo má segja. Þessi vinnuhestaútflutningur á árunum fyrir 1950 var svo í takt við hið stutta skeið sem áhersla var lögð á ræktun vinnuhrossa á fyrstu árum starfsferils Gunnars Bjarnasonar sem landsráðunautar í hrossarækt og áður var vikið að, sjá 42. tbl. Feykis, 3. nóvember sl.

Útflutningurinn þróun og staða

Í vefrænni útgáfu sýningarinnar Íslenski hesturinn á fullveldisöld 1918 – 2018, sem er að finna á heimasíðu SÍH; sogusetur.is undir slánni Gagnabanki, er m.a. súlurit yfir fjölda útfluttra hrossa frá landinu árin 1918 til 2017; árið 2017 fóru 1.485 hross úr landi, 2018 voru þau 1.348, 2019;1.509, 2020; 2.320 og 2021; 3.341 (Morgunblaðið, 23. desember 2021, bls. 4: „Metár í útflutningi á hrossum“). Heimildin sem á var byggt í frétt blaðsins er gagnavörslukerfið WF. Því er jafnframt slegið föstu í frétt blaðsins að um metár sé að ræða í útflutningi: „Fyrra Íslandsmet í útflutningi hrossa, frá því að skráning hófst, var árið 1996 þegar 2841 hross var flutt úr landi“. Það er að vísu ekki rétt; bæði hvað það varðar að skráningar ná mikið lengra aftur, samanber súluritið sem vísað var til hér á undan og byggist á gögnum frá Hagstofu Íslands og hvað eldri tölfræði varðar, Verzlunarskýrslum og Lýsingu Íslands eftir Þorvald Thoroddsen.

Þar sést að salan fór hæst á tuttugustu öldinni árið 1920; 3.436 hross og á sölutímanum mikla á seinni hluta 19. aldar þegar tímar sauða- og hrossakaupmannanna Johns Coghill og slíkra stóðu sem hæst í 5.700 hross eitt árið eins og getið var um í síðustu grein (Íslenski hesturinn, útg. MM og SÍH 2004, bls. 286 og 288). Í Morgunblaðsgreininni er jafnframt fullyrt, að slepptum síðustu árunum, hafi útflutningurinn verið þetta 1.100 til 1.500 hross á ári, vissulega stemmir það að mestu og sum árin jafnvel minni en á árabilinu 1992 til 1999 fóru þó öll árin um eða yfir 2.000 hross úr landi og eins fyrstu árin á fullveldistímanum.

Það má fullyrða hversu mjög sem hrossaræktinni hefur undið fram og áherslan á ræktun topphrossa vaxið að stórútflutningur hefur aldrei náðst fram með eingöngu það sem kalla má topphross á hverjum tíma. Enda er útflutningur ársins í ár skilgreindur með svofelldum hætti í fyrrnefndri Morgunblaðsgrein: „Kristbjörg Eyvindsdóttir, útflytjandi hjá Gunnari Arnarsyni ehf., segir að margar skýringar kunni að vera á aukningu í útflutningi. Þörf hafi verið að myndast á markaðnum. Verið sé að kaupa allt frá folöldum til stólpa gæðinga. Mest fari þó af þægum útreiðahrossum. Hún segir að Evrópubúar ferðist minna vegna kórónuveirufaraldursins og veltir því fyrir sér hvort fleiri þeirra noti í staðinn frítíma sinn og fjármuni í tómstundir eins og útreiðar og samvistir við dýr.“

Tilvitnuðum orðum til frekari staðfestingar liggur og fyrir að af 3.341 hrossi sem úr landi fóru á nýliðnu ári voru 845 með A-vottun en slíka vottun fá hross þar sem foreldrar þess hafa verið DNA-greind og staðfesting á ætterni liggur fyrir með þeirri aðferð. A-vottun er regla þar sem um eiginlegan ræktunarbúskap er að ræða og þannig er um fjórðungur útflutningsins (25,3%) afsprengi vandaðrar ræktunar sem örugglega er þó hærra hlutfall en á fyrri árum þegar útflutningur var álíka mikill að magni til og hann hefur verið síðustu árin. Að vísu má álykta að harðræktuð hross séu nokkru fleiri en þessi rúmu 25% útflutningsins því sumir ræktendur hafa þann háttinn á að láta ekki DNA-greina hjá sér unghrossin fyrr en að fyrir liggur að þau mæti í kynbótadóm. Þannig er ekki ólíklegt að þetta hlutfall sé nær 40% eða svo.

Útflutningsmarkaðir eftir lok vinnuhestatímans, stutt yfirlit

Að mörgu því sem snertir þróun og baráttu fyrir uppbyggingu útflutningsmarkaða hefur verið vikið samfara ýmsu því sem fjallað hefur verið um í greinarflokki þessum hingað til. Á engan er hallað þó nafns Gunnars Bjarnasonar sé sérstaklega getið en hann sinnti starfi útflutningsráðunautar Búnaðarfélags Íslands um áratugaskeið eftir að hann lét af starfi landráðunautar félagsins í hrossarækt. Í starfssögu sinni, sem birtist í Ættbók og sögu, fjallar hann eðlilega mikið um þau mál; í þriðja bindinu sem út kom hjá Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri árið 1981 fjallar hann á bls. 9 til 136 um árin 1950 – 1960 og heldur svo áfram í fimmta bindi ritverksins sem út kom hjá sama forleggjara árið 1989 og fjallar þar samþætt um átakasögu sína, heima og erlendis á bls. 11 til 183 og tekur þá til umfjöllunar sögu áranna 1961 – 1973.

Botninn slær hann svo í umfjöllun sína á bls. 9 til 112 í sjöunda og lokabindi ritverksins sem forleggjarinn gaf út árið 1991. Kaflaheitið er: Hestaverzlunin og störf útflutningsráðunautarins 1973 – 1990. Þá ber að geta skýrslu nefndar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem starfaði 2008 – 2009 og sendi frá sér lokaskýrslu í desember 2009; Markaðssetning íslenska hestsins erlendis, skýrslan er auðfinnanleg á veraldarvefnum með hjálp helstu leitarvéla. Í skýrslunni eru markaðssvæðum íslenska hestsins gerð skil á bls. 33 til 51. Nú síðari árin hefur verið starfrækt markaðsverkefni á vegum Íslandsstofu, sjá https://www.horsesoficeland.is/ þar er ýmsar upplýsingar að finna er varða íslenska hestinn. En unnið er undir yfirskriftinni „Horses of Iceland. Bring you closer to nature“.

Niðurlagsorð

Í næstu grein verður fjallað um þróun félagskerfis búgreinarinnar allt frá stofnun hrossaræktarfélaganna og til dagsins í dag.

Kristinn Hugason
forstöðumaður
Söguseturs íslenska hestsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir