Saga hrossaræktar – félagskerfið, hrossaræktarfélögin :: Kristinn Hugason skrifar

Þekktur félagshestur: Nasi 88 frá Skarði, fæddur 1918 hjá Matthíasi Jónssyni, Skarði í Gnúpverjahreppi. Sýndur við Ölfusárbrú 1922 og 1927 og hlaut 1. verðlaun í bæði skiptin, hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi í Stafholtsrétt 1927. Hrfél. Gnúpverjahrepps keypti Nasa árið 1928 og notaði hann til kynbóta til ársins 1940. Nasi reyndist farsæll kynbótahestur, var oft sýndur og hlaut ætíð fyrstu verðlaun. Í hestinn heldur Theodór Arnbjörnsson hrossaræktarráðunautur BÍ. Úr bókinni Íslenski hesturinn, bls. 206, útg. MM og SÍH 2004, ljm.: Ólafur Magnússon.
Þekktur félagshestur: Nasi 88 frá Skarði, fæddur 1918 hjá Matthíasi Jónssyni, Skarði í Gnúpverjahreppi. Sýndur við Ölfusárbrú 1922 og 1927 og hlaut 1. verðlaun í bæði skiptin, hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi í Stafholtsrétt 1927. Hrfél. Gnúpverjahrepps keypti Nasa árið 1928 og notaði hann til kynbóta til ársins 1940. Nasi reyndist farsæll kynbótahestur, var oft sýndur og hlaut ætíð fyrstu verðlaun. Í hestinn heldur Theodór Arnbjörnsson hrossaræktarráðunautur BÍ. Úr bókinni Íslenski hesturinn, bls. 206, útg. MM og SÍH 2004, ljm.: Ólafur Magnússon.

Nú skal tekinn upp þráðurinn þar sem honum var sleppt í 38. tbl., 6. október 2021 en þar var svo komist að orði í niðurlagi greinarinnar: „Fyrsta hrossaræktarfélagið: Hrossaræktarfélag Austur-Landeyja var stofnað 1904, þau voru síðan stofnuð hvert af öðru. Er hér um að ræða upphaf mikillar sögu, enda runninn upp ný öld. Öld umbrota og framfara, eða eins og stórskáldið, athafna- og hestamaðurinn Einar Benediktsson orðaði það í lokaorðum kvæðis síns Aldamót; „Lát snúast tímans tafl, / tuttugasta´öld.““. Verður nú þessari sögu framhaldið.

Forsendur stofnunar hrossaræktarfélaganna

Þegar tilurð hrossaræktarfélaganna er skoðuð, rétt eins og sauðfjár- og nautgriparæktarfélaganna, þarf að hafa í huga fyrirkomulag landbúnaðarins í landinu. Þar erum við komin að hinu norður-evrópska / skandinavíska fyrirkomulagi búfjárræktarinnar og raunar landbúnaðarins í heild; þar sem búin voru smá hvert um sig, a.m.k. í samanburði við það sem þá tíðkaðist á Bretlandseyjum og víðar, þar sem rekin voru stór óðul með þéttum klasa smábýla (leiguliða) í kring. Í Vesturheimi ruddi og stórbúskapur sér til rúms en líka minni einingar þó sjálfseignarbúskapur væri þar ráðandi. Í Svíþjóð voru þó vissar undantekningar frá þessu en þar var nokkuð um gamalgróinn stórbúskap á óðalssetrum. Þetta fyrirkomulag orsakaði að hinir fjölmörgu bændur sem allir voru með tiltölulega smáar einingar urðu að sameinast í ræktunarfélög til að geta myndað starfhæfa ræktunareiningu en „landlordar“ Bretlandseyja og víðar gátu ræktað upp jafnvel heilu kynin innan hinna ólíku búfjártegunda einir og sér.

Í þessu ljósi þarf hvoru tveggja að skoða hvatann til stofnunar hrossaræktarfélaganna og þess sem á eftir fylgdi, þ.e. þróun félagskerfisins, skýrsluhaldið og síðar upptaka samræmds kynbótamats o.fl. þ.h. Í þessu sambandi vill höfundur rifja upp atvik sem henti á þeim tíma þegar hann var landsráðunautur í hrossarækt og tók virkan þátt í starfi Búfjárræktarsambands Evrópu (EAAP). Samtökin eru deildaskipt og starfaði höfundur vitaskuld í hrossadeildinni en á ársfundi samtakanna var ýmist fundað sameiginlega þar sem flutt voru yfirlitserindi og erindi sem höfðu víða almenna skírskotun eða í deildunum þar sem umfjölluninni var beint að sérhæfðari efnum. Hluti af dagskrá fundanna, og ekki sá veigaminnsti, voru svo skoðunar og kynnisferðir; á ársfundunum var farið í eina sameiginlega skoðunarferð sem var um miðbik ráðstefnunnar en í lokin fóru sumar deildanna í skoðunarferð hver fyrir sig.

Breytilegt var hvaða deildir fóru þetta árið eða hitt, allt eftir því hversu mikið var að sjá í viðkomandi landi og hver stemningin var innan hópsins. Einnig var það svo og raunar mjög oft m.t.t. umfangs hrossaræktarinnar sem slíkrar, að drjúgur hluti hinnar reglubundnu skoðunarferðar var helguð hrossaræktinni í viðkomandi landi með einum eða öðrum hætti, t.d. með kynningu á hrossakyni eða starfsemi sem viðkomandi land var einkum þekkt fyrir. Því var eðlilega um minni hvata að ræða en ella að efna til sérstakra skoðunarferða helgaðra hestinum.

Þó atvikaðist eitt sinn svo þegar ráðstefnan var í Skotlandi að við, þátttakendur í hrossadeildinni, fórum í sameiginlegt ferðalag niður til Englands og skoðuðum þar eitt og annað, m.a. stöð þar sem ræktun og þjálfun á veðhlaupahestum fór fram. Þátttakendur í ferðinni voru ekki fleiri en svo að gott ráðrúm gafst til persónulegs spjalls við gestgjafana hverju sinni, á téðri stöð ræddi ég við ráðsmanninn. Barst þar eitt og annað í tal, m.a. mat á eftirsóttum eiginleikum, skýrsluhald og útreikningur kynbótamats. Kom þá glögglega fram að hann hefði úr miklum fjölda hrossa að moða, héldi um margháttuð gögn sem þó kæmi aldrei til greina að deila með öðrum!

Svipurinn á manninum var óborganlegur þegar ég fjallaði um eðli sameiginlegs skýrsluhalds og útreikning kynbótamats, um Feng-kerfið sem þá var í smíðum og sameiginlegt kynbótamat. Að láta svo mikilvægar upplýsingar öðrum í té var utan við skilning hans. En akkúrat þessar gerólíku aðstæður sem voru uppi fyrir rúmri öld síðan og eru enn við lýði í megin atriðum, eins og frásagan hér á undan ber með sér, skópu grunninn að stofnun hrossaræktarfélaganna.

Inntak starfseminnar

Fyrirmyndin að stofnun og starfsemi hrossaræktarfélaganna var sem sagt skandínavísk. Frumherjinn að stofnun þeirra var enda sá Íslendingur sem fyrstur lauk kandídatsprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn, árið 1900, stundaði að því loknu sérnám í búfjárrækt við skólann og fór í námsferð til Bretlandseyja. Heimkominn, í mars 1902, var hann ráðinn til Búnaðarfélags Íslands sem fyrsti ráðunautur félagsins í búfjárrækt. Þetta var Guðjón Guðmundsson frá Finnbogastöðum í Strandasýslu, sem fyrr hefur komið við sögu í skrifum þessum, fæddur 1872 en lést skyndilega 13. maí 1908; hann hné niður í stiganum og örendur á fáeinum augnablikum er hann var að yfirgefa spítala eftir fárra daga innilegu, talinn alheill orðinn (upplýsingar af vef Héraðsskjalasafns Austur-Húnavatnssýslu).

Þetta var mikill missir en á þeim stutta tíma sem Guðjón starfaði stóð hann að upphafi stofnunar hrossaræktarfélaganna; hið fyrsta var Hrossaræktarfélag Austur-Landeyinga, stofnað 16. maí 1904. Einnig stóð hann að fyrstu hrossasýningunni á vegum BÍ sem fram fór að Þjórsártúni 14. júlí 1906. Fyrsta sýning fyrir hross félagsmanna í Hrossaræktarfélagi Austur-Landeyinga fór svo fram 11. apríl 1908. Þarna var sem sagt að myndast vísir að fyrirkomulagi sýningahalds; hreppa- og héraðssýninga eftir hugmyndum Guðjóns, sýningahald sem átti svo eftir að mótast og festast í sessi og lögbindast síðar.

Í lögum Hrossaræktarfélags Austur-Landeyinga segir í fyrstu grein svo: „Tilgangur þess er að framleiða stóra, vel skapaða, viljagóða, fljóta, þolna og ganghreina reiðhesta, er líkur séu til að nái áliti á innlendum og erlendum markaði og komist í hátt verð.“ „Jafnframt vill félagið með góðu eftirdæmi styðja að kynbótum hrossa yfirleitt og bættu uppeldi og betri fóðrun og meðferð.“ Inntökugjald í félagið var 5 kr. en árgjald 1 króna. Félagsmenn voru í upphafi 20 en fækkaði síðan nokkuð. Félagið kom upp myndarlegri stóðhestagirðingu í landi Miðeyjar og keypti graðfola frá Kirkjubæ á Rangárvöllum og tveimur árum síðar annan frá Oddhól og fékk sá fyrstu verðlaun á upphafssýningunni, sem fyrr er á minnst, árið 1906 (Brúnn frá Oddhól, nr. 3 í ættbók).

Áttu félagsmenn rétt á að halda tveimur hryssum ár hvert undir félagshest. Trippi undan félagshestum skyldu menn færa til sýninga félagsins ásamt hryssum sem ætlunin var að rækta undan. Á fyrstu sýningunni sem fyrr var getið um, voru sýnd öll trippi félagsmanna undan félagshestunum, 66 alls og 27 undaneldishryssur. (Landbúnaðarsaga Íslands, 3. bindi, Jónas Jónsson, Skrudda 2013, bls. 241 til 243). Af framansögðu sést að þetta fyrsta hrossaræktarfélag var ræktunarfélag þar sem standa átti að eins konar úrvalsræktun því augljóst er að bændur í Landeyjum hafa flestir hverjir haldið ár hvert meira en tveimur hryssum hver.

Niðurlagsorð

Í næstu grein verður framhaldið umfjöllun um þróun félagskerfis hrossaræktarinnar.

Kristinn Hugason

forstöðumaður Söguseturs íslenska hestsins

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir