Sæluvikan var sett í dag
Sæluvikan var sett í dag við athöfn í Safnahúsi Skagfirðinga við Faxatorgið á Króknum, Það var fullur salur og góð stemning. Á samkomunni var tilkynnt um hverjir hlutu Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2024 og úrslit í Vísnakeppni Safnahússins. Nemendur í Tónlistarskóla Skagafjarðar léku við hvurn sinn fingur og opnuð var ljósmyndasýning með myndum Stefáns heitins Pedersen.
Það var Sigfús Ólafur Guðmundsson, deildarstjóri, atvinnu-, menningar- og kynningarmála hjá sveitarfélaginu Skagafirði, sem sá um kynningu og kynnti fyrst til sögunnar Eyrúnu Sævarsdóttur sem flutti smá tölu og setti Sæluvikuna. Í framhaldinu afhenti hún Samfélagsverðlaun Skagafjarðar en þau hlutu hjónin Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir og Árni Björn Björnsson líkt og Feykir sagði frá fyrr í kvöld. Árni mætti fyrir hönd þeirra hjóna og tók við blómum, listaverki og heiðursskjali.
Því næst var komið að Sigríði Garðarsdóttur frá Miðhúsum í Blönduhlíð að tilkynna um úrslit í Vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga en nánar verður sagt frá þeim á Feykir.is á morgun. Að endingu sagði Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður frá Stefáni Pedersen ljósmyndara og ljósmyndasýningunni sem berja má augum í Safnahúsiinu.
Inn á milli mættu til leiks efnilegar stúlkur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar og spiluðu á píanó. Fyrst kom Gréta Berglind Jakobsdóttir sem lék The Tempest eftir Nancy Faber og Fur Elise eftir Beethoven. Bjarkey Dalrós Rúnarsdóttir mætti einnig til leiks en hún spilaði fyrir gesti Canon eftir Pacelbel og Faded eftir Alan Walker.
Að dagskrá lokinni var boðið upp á marsipantertu úr Sauðárkróksbakaríi og kaffi. Þá gafst gestum færi á að virða fyrir sér ljósmyndir Stefáns Pedersen og einnig nokkur málverk sem hann hafði málað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.