Rúi og Stúi á fjalirnar klukkan fjögur!
Nú klukkan 4 í dag frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks barnaleikritið Rúi og Stúi í Bifröst. Leikritið er eftir þá Skúla R. Hilmarsson og Örn Alexandersson en leikstjóri er Þröstur Guðbjartsson. Hér segir af þeim uppfinningamönnum Rúa og Stúa sem hafa fundið upp vél sem leysir öll verkefni sem henni eru fengin - en svo bilar vélin og bæjarstjórinn hverfur!
Það verður örugglega mikið fjör og gaman á sýningum LS. Á heimasíðu félagsins segir að það hafi hinsvegar vantað lokalag í sýninguna og þá var hóað í þá snillinga Rögnvald og Guðbrand Ægi sem hristu eitt lag fram úr erminni og útkoman hress og skemmtileg.
Þá má geta þess að Leikfélag Sauðárkróks fékk styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra vegna uppsetningar á barnaleikritinu Rúa og Stúa. Styrkurinn hljóðaði upp á 250.000 kr. Menningarráðið hefur verið einn af stærstu styrktaraðilum LS undanfarin ár og hefur skipt sköpum í fjármálum félagsins.
Nánar um Rúa og Stúa og sýningartíma á heimasíðu LS >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.