Rollur reknar í sól og sunnanátt
Það var ekki mikið hægt að kvarta yfir veðrinu á Norðurlandi vestra um helgina, sól og sumarylur lék um lyng og stein og þar fram eftir götunum. Ljósmyndari Feykis.is var kannski ekkert ofsa hrifinn að hafa lent á eftir þessari rollusamkomu í Hjaltadalnum um miðjan dag í gær en gaf sér þó tíma til að smella nokkrum myndum áður en snúið var við og hin leiðin farin heim.
Hitinn í Hjaltadalnum var 19 gráður og tiltölulega stilltur vindur og það væsti ekki um menn og húsdýr. Nautgripir og gæðingar fylgdust forvitnir innan girðinga með ferðalagi fjárins og kannski hafa þeir glott út í annað. Ekki gott að segja. Féð var ekki á ferðalagi að ástæðulausu en það voru réttir víða á Norðurlandi vestra um helgina og þetta fé var á leið heim úr Laufskálarétt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.