Riða og bætur til bænda
Fyrir skömmu undirritaði matvælaráðherra breytingu á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé. Breytingin kveður á um að yfirdýralæknir geti framvegis lagt til við ráðherra niðurskurð á hluta þar sem riða greinist en ekki allrar hjarðarinnar líkt og reglugerðin hefur kveðið á um fram til þessa. Það er afar ánægjulegt að þessi breyting hafi loksins gengið í gegn og mikilvægt að vel takist til í framhaldinu.
Ég vil hins vegar hér beina kastljósinu að öðrum þætti málsins sem er því miður útistandandi og snýr að bótagreiðslum til bænda sem þurfa að sæta niðurskurði. Þannig er til að mynda enn ósamið við bændur í Miðfirði um bótagreiðslur vegna niðurskurðar í apríl síðast liðnum. En reglugerðin kveður skýrt á um það að greiðslur til bænda skulu berast eigi síðar en 45 dögum eftir að förgun lauk og er þetta langt í frá eina dæmið um erfiðleika bænda við að ná samningum við ráðuneytið.
Bæta þarf að fullu raunverulegt tjón
Það er ljóst að kafli reglugerðarinnar um bótaþáttinn er úreltur og þarfnast endurskoðunar með það fyrir augum að réttarstaða bænda verði betur tryggð og tekin af öll tvímæli um hvað teljast fullar bætur fyrir það tjón sem hvert býli verður fyrir hverju sinni vegna förgunar á fé.
Bótarétturinn er ótvíræður og kveðið á um hann í 20. gr. laga um dýrasjúkdóma og varna gegn þeim. Bótagreiðslur taka til verðgildis afurða og rekstrartaps sem sannanlega leiðir af eyðingu dýranna. Í IV. kafla reglugerðar, nr. 65/2001, er nánar kveðið á um útreikning bótagreiðslna, en kaflinn er að stofni til óbreyttur frá árinu 2001.
Ákvæði reglugerðarinnar tiltaka þrjá meginbótaflokka: förgunarbætur, afurðatjónsbætur og bætur fyrir niðurrif, hreinsun o.þ.h. Ýmsar forsendur eru lagðar til grundvallar, til að mynda skal greiða fyrir förgun á kind andvirði 16 kg. dilkakjöts í gæðaflokki DR2, eða öðrum verðflokki, auk skilgreinds álags. En heilt yfir eru ákvæðin óskýr og veigamiklir þættir ráðast af matskenndum atriðum. Þar stendur hnífurinn einna helst í kúnni.
Sem dæmi þá er tiltekið í 15. gr reglugerðarinnar að: „aðili sem fargað hefur sauðfé vegna riðuveiki skal hreinsa útihús og nánasta umhverfi þeirra á eigin kostnað eftir fyrirmælum og undir eftirliti héraðsdýralæknis á svæðinu.“ En í úrskurði matsnefndar eignanámsbóta, nr. 10/2009, frá 2010 sem fjallað um fjárhæð bóta vegna förgunar út af riðuveiki, er tiltekið í úrskurðarorði að í ákvörðuðum fjárhæðum hafi verið tekið tillit til eign vinnu sem ekki er bætt sérstaklega með vísan til 17. gr. laga um dýrasjúkdóma. Úrskurður matsnefndar var í framhaldinu staðfestur af héraðsdómi. Fyrir liggur að ráðuneyti landbúnaðar hefur ekki vilja unað þessari niðurstöðu og þrást við að taka tillit til atriða eins og vinnulaunaþáttar þegar slíkt á við.
Tryggja þarf réttarstöðu bænda
Eins og málum þessum er háttað er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að stjórnsýsluframkvæmdin við ákvörðun bóta til þeirra sem þurfa að sæta förgun vegna riðuveiki er óboðleg. Bændur eiga ekki að þurfa að standa í stappi við ráðuneytið mánuðum og árum saman við að fá úrlausn sinna mála. Þessu verður að breyta.
Síðustu mánuði hef ég tekið þetta mál upp við matvælaráðherra og beint til hans fyrirspurnum um hvort ráðherra telji að gildandi ákvæði laga og reglugerðar tryggi nægjanlega vel að komið sé að fullu til móts við þá sem verða fyrir tjóni vegna niðurskurðar og um afstöðu hans til þess að ráðast í endurskoðun regluverkinu um ákvörðun bótafjárhæðar. Svörin hafa hingað til verið óljós en ég bind vonir við það að ráðherra breyti um kúrs í ráðuneytinu og ráðist í þessar nauðsynlegu úrbætur.
Virða verður þá skýru reglu að bændur fái niðurstöðu sinna mála innan 45 daga frestsins og við ákvörðun bóta sé horft á hvert tilviki og aðstæður hverju sinni þannig að fullar bætur verði greiddar fyrir tjón sem raunverulega hefur hlotist.
Mikilvægast er að búið verði svo um hnúta að þeir bændur sem verða fyrir viðlíka áfalli að neyðast til að skera niður allan sinn bústofn hafi tök á og tækifæri til að hefja búskap að nýju.
Teitur Björn Einarsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.