Rennblautur og dýrmætur baráttusigur Tindastólsmanna

Greg Conrad var betri en enginn í dag en kappinn gerði tvö mörk í góðum sigri Stólanna. Hér er hann í leik gegn Aftureldingu fyrr í sumar.  MYND: ÓAB
Greg Conrad var betri en enginn í dag en kappinn gerði tvö mörk í góðum sigri Stólanna. Hér er hann í leik gegn Aftureldingu fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Tindastóll og Víðir mættust á Sauðárkróksvelli í dag í úrhellisrigningu en logni. Leikurinn var mikilvægur báðum liðum; Stólarnir vildu reyna að fjarlægjast botnbaráttuna en Víðismenn sáu glitta í sæti í 1. deild að ári. Leikurinn var fjörugur og þegar upp var staðið var búið að sækja boltann sex sinnum í mörkin en ferðir Víðismanna reyndust fleiri. Þetta var ekki góður dagur fyrir Ísland á körfubolta- og fótboltavellinum en fínn fyrir Stólana. Lokatölur 4-2 fyrir Tindastól.

Þeir 30 áhorfendur sem fundið höfðu regnfötin sín voru varla búnir að koma sér fyrir í stúkunni þegar Greg Conrad hafði gert fyrsta mark leiksins á 3. mínútu. Hann fylgdi þá eftir stangarskoti Benna eftir laglega sókn. Eftir þetta tóku Víðismenn völdin og sóttu án afláts að marki Tindastóls en þar stóðu varnarmenn Stólanna vaktina og gáfu fá færi. Víðismenn voru hins vegar duglegir að henda sér niður og fiska aukaspyrnur og heimtuðu ítrekað spjöld á Tindastólsmenn fyrir litlar sakir. Þrátt fyrir sóknarþunga gestanna voru það Stólarnir sem fengu betri færin. Upp úr miðjum hálfleiknum var brotið á Benna rétt innan teigs og fram steig Raggi Gunn til að negla boltanum í markið úr vítinu. Eitthvað klikkaði miðið [eða aðstæðurnar) því boltinn fór örugglega meter yfir þverslána. Stuttu áður höfðu Víðismenn bjargað á línu eftir góða sókn. Staðan 1-0 í hálfleik.

Það mátti reikna með pressu frá gestunum í síðari hálfleik en það voru þó Stólarnir sem byrjuðu vel, héldu boltanum betur en þeir gerðu í fyrri hálfleik. Jöfnunarmark Garðbúa kom því nokkuð gegn gangi leiksins. Ari Guðmundsson reyndi þá að komast inn fyrir vörn Tindastóls og hafði heppnina með sér, boltinn hrökk af varnarmanni inn á teiginn og Ari á auðum sjó. Hann negldi boltanum milli fótanna á Brentton og staðan 1-1. Heppnin hefur ekki elt Stólana í sumar en þeir létu ekki deigan síga. Næstu mínútur var jafnvægi í leiknum en á 62. mínútu kom Greg Conrad Stólunum yfir að nýju eftir frábæra sókn upp vinstri kantinn. Boltinn var sendur þéttingsfast fyrir markið og þar renndi kappinn sér á boltann og skoraði af öryggi. Fjórum mínútum síðar bættu Stólarnir við þriðja marki sínu þegar Jack Clancy rak lokahöggið á laglega sókn. Víðismenn vissu síðan ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar Raggi Gunn gerði fjórða markið stuttu síðar. Kappinn fékk boltann á vinstri kantinum við miðlínu með fjóra Breiða fyrir framan sig. Hann lék aðeins upp kantinn og lét síðan vaða af 45-50 metra færi og boltinn fór í klassískum boga yfir markmanninn og í markið! Þrjú mörk á sex mínútna kafla og staðan 4-1.

Víðismenn áttu lítinn séns eftir þetta en þeir reyndu að sækja á meðan heimamenn settu fríska fætur inn á og reyndu að spila öruggt. Það kom að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að Stólarnir fengju á sig hið hefðbundna uppbótartímamark sem Patrik Atlason gerði með glæsiskalla eftir góða skyndisókn.

Úrslit leikja í 2. deildinni voru Tindastólsmönnum hagstæð en þeir voru eina liðið í botnbaráttunni sem vann sigur í dag. Liðið er því í sjöunda sæti með 25 stig en fjögur lið koma þar fyrir neðan með 21 stig og Hornfirðingar síðan neðstir og í raun fallnir. Þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu en næsti leikur Tindastóls er gegn KV sunnudaginn 10. september.

Lið Tindastóls spilaði á köflum ágætan fótbolta í dag og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Liðið varðist vel í þeim fyrri en hélt boltanum ekki nægilega vel. Bjarki Már, Fannar Kolbeins og Tanner Sica (sem fékk reyndar að líta rauða spjaldið rétt fyrir leikslok) voru grjótharðir í vörninni og í síðari hálfleik voru Clancy og Donni að gera góða hluti á miðjunni ásamt Jóni Gísla, 15 ára guttanum sem var að byrja í 10. bekk í Árskóla í síðasta mánuði. Það er ekki að sjá á kappanum sem gefur ekki þumlung eftir og notar boltann vel. Verulega spennandi leikmaður sem gaman er og verður að fylgjast með. Aðrir leikmenn skiluðu sínu með miklum sóma og gott að sjá Greg Conrad skora tvö í dag.

Það er hinsvegar spurning hvort þakka megi Pálma Sighvats sigurinn...!?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir