Rekstur Háskólans á Hólum í jafnvægi á árinu 2009
Í ljósi frétta af skýrslu Ríkisendurskoðunar um að Hólaskóli – Háskólinn á Hólum sé í hópi þeirra ríkisstofnana sem hafi ekki brugðist við rekstravanda sínum á þessu ári vill skólinn leiðrétta þennan miskilning og koma eftirfarandi á framfæri.
Brugðist hefur verið við rekstrarvandanum með mjög afgerandi hætti. Umfangsmikil hagræðing hefur átt sér stað í rekstri skólans á þessu ári og er reksturinn nú kominn í jafnvægi. Rekstraráætlun ársins 2009 gerði ráð fyrir um 113 m.kr. hagræðingu miðað við árið 2008 og að skólinn yrði rekinn innan fjárheimilda ársins.
Allt lítur út fyrir að þessu marki verði náð að mestu og viðsnúningurinn á þessu ári verði a.m.k. 100 m.kr. Þennan árangur þakkar skólinn skipulögðum vinnubrögðum, ötulli þátttöku allra starfsmanna og góðu samstarfi við menntamálaráðuneytið. Rekstrarstjórn hefur verið efld meðal annars með dyggri aðkomu tilsjónarmanns sem menntamálaráðherra skipaði í janúar 2009. Starfi tilsjónarmanns lauk í júní sl. þegar sýnt var að rekstur skólans var kominn í jafnvægi en skólinn heldur þó áfram að njóta ráðgjafar hans. Af þessu má sjá að skólinn hefur gripið til aðgerða til að bæta reksturinn á þessu ári.
Fyrrnefndur fréttaflutningur á ekki við rök að styðjast, heldur byggir bersýnilega á ófullnægjandi upplýsingum. Þó tölur Ríkisendurskoðunar um uppsafnaðan halla skólans séu réttar er ljóst að rekstrarárangur innan ársins 2009 er mjög mikill.
Háskólinn á Hólum hefur verið í örri þróun undanfarin ár, nemendum hefur fjölgað mikið og skólinn sinnir mörgum rannsóknaverkefnum. Háskólastarf Hólaskóla hlaut viðurkenningu menntamálaráðuneytis árið 2008. Fjárveitingar hins opinbera jukust þó ekki í samræmi við þessa þróun skólans. Í ljósi aðhalds í fjárlagagerð haustið 2008 varð áætlun stjórnvalda um aukin opinber framlög til skólans fyrir yfirstandandi ár ekki að veruleika. Því var gripið til ofangreindra aðgerða á þessu ári til að rétta rekstur skólans við til framtíðar og hefur árangurinn orðið sá sem að ofan greinir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.