Rannsóknir Veiðimálastofnunar vekja heimsathygli

Bjarni Jónsson

Í dag kemur út grein í hinu virta vísindablaði Science sem byggir m.a. á rannsóknum sem fram hafa farið  hjá sérfræðingum Veiðimálastofnunar á Sauðárkróki. Verkefnið er fjölþjóðlegt en vísindamenn við læknadeild Stanford háskóla í Bandaríkjunum hafa leitt rannsóknarstarfið. Í verkefninu er beitt nýjustu tækni erfðafræðinnar við að finna og kortleggja einstök gen og virkni þeirra.

Stökkbreyttur hornsílastofn fannst af tilviljun fyrir nokkrum árum í Vífilsstaðavatni þar sem Bjarni Jónsson fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun var með útikennslu grunnskólabarna. Hann tók eftir því að sílin höfðu ekki hefðbundna gadda sem eru á kviði hornsíla og þau draga nafn sitt af. Tilraunaeldi og genarannsóknir leiddu síðar í ljós að stökkbreyting í einu ákveðnu geni hefði valdið þessum breytingum og það sem meira er, að með þessum rannsóknum var hægt að sýna fram á með hvaða hætti sömu gen geta valdið sambærilegum breytingum þ.m.t. í mönnum en viðkomandi gen stjórna þroskun útlima hjá hryggdýrum. Þannig er hægt að útskýra með þessum rannsóknum hvernig hvalir o.f.l. dýr töpuðu fótum í þróunarsögunni. -Ljóst er að slíkar breytingar geta gerst á undraskömmum tíma. Þetta hefur mikla þýðingu við skilning á beinþroska og lækningar á genagöllum í framtíðinni, segir Bjarni Jónsson en hann mun dvelja næstu þrjá mánuði við Stanford háskólann og fylgja eftir þessum rannsóknum ásamt samstarfsfólki.

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir