Ragnar Þór með þrennu í fyrsta sigri Stólunna

Stólarnir höfðu ástæðu til að fagna í gær. Þessi mynd er hinsvegar úr leiknum gegn Magna á dögunum.  MYND: ÓAB
Stólarnir höfðu ástæðu til að fagna í gær. Þessi mynd er hinsvegar úr leiknum gegn Magna á dögunum. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn gerðu góða ferð á Egilsstaði í gær þar sem þeir mættu liði Hattar í sjöttu umferð 2. deildar. Stólarnir höfðu enn ekki unnið leik í deildinni, reyndar verið fjári óheppnir, en lið Hattar hafði unnið einn leik, gert þrjú jafntefli og tapað einum áður en Stólarnir komu í heimsókn. Gestirnir gerðu sér lítið fyrir og stungu af með öllu stigin en Ragnar Þór Gunnarsson gerði öll mörk Tindastóls í 1-3 sigri.

Lið Tindastóls hafði gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni en tapaði síðan þremur í röð, þar af tveimur á lokamínútum leikjanna. Það var því kominn tími til að boltinn skoppaði fyrir okkar menn. Leikurinn fór þó ekki vel af stað fyrir Króksarana því Petar Mudresa kom heimamönnum yfir á 10. mínútu. Ragnar Þór jafnaði síðan metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks og liðin því með sitt markið hvort í hálfleik.

Tindastólsmenn komust síðan yfir á 81. mínútu leiksins og Ragnar bætti við þriðja marki sínu sex mínútum síðar og grjótharður 1-3 sigur þar með staðreynd.

Mikilvægur sigur og Stólarnir klóruðu sig úr fallsæti. Næst mæta strákarnir liði Vestra frá Ísafirði sem er í öðru sæti deildarinnar og hafa á að skipa sterkum hópi. Leikurinn fer fram á Króknum á sjálfan þjóðhátíðardaginn og hefst kl. 14:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir