Rækjur á salati, nautabuff og eplakaka frá mömmu
Matgæðingar vikunnar í 9. tbl. Feykis 2017 voru þau Bryndís Bjarnadóttir og Ágúst Jónsson á Ytra-Skörðugili. Þau buðu upp á rækjuforrétt með sterkri sósu, sinepskryddað nautabuff í aðalrétt og að lokum ljúffenga eplaköku í eftirrétt. „Ég er heimilisfræðikennari í Varmahlíðarskóla og hef áhuga á matseld en húsbóndinn sér um að grilla. Forrétturinn er mjög góður á hlaðborð og eplakakan er uppskrift frá móður minni og var mjög oft á sunnudögum á mínu æskuheimili. Hún er líka vinsæl á okkar heimili,“ segir Bryndís.
FORRÉTTUR
Rækjur á salati m/ sterkkryddaðri dressingu að hætti Louisana-búa
Fyrir 6 manns
500 g rækjur
2 stk. avókadó
½ haus íssalat
⅓ gúrka, kjarnhreinsuð og skorin í sneiðar
2 stk. sítrónur
12 stk. kirsuberjatómatar
Dressing:
1 laukur
1 chili-pipar, kjarnhreinsaður og skorinn gróft
5 - 8 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
1 tsk cummin
1 tsk kóríander
1 msk maisolía
1 dl hvítvínsedik
1 dl púðursykur
1 dl barbekjúsósa
2 msk tómat-púrra
2½ dl kjúklingasoð
1 rauð paprika, kjarnhreinsuð og skorin í strimla
¼ blaðlaukur, skolaður og skorinn í strimla
Aðferð:
Laukur, chili-pipar og hvítlauksgeirar léttsteiktir upp úr maisolíu ásamt cummin og kóríanderdufti. Hellið hvítvínsediki, barbekjúsósu og tómatpúrru ásamt púðursykri yfir. Látið allt krauma vel saman og hellið soðinu yfir. Látið sjóða í u.þ.b. 20 mín. við vægan hita. Sigtið vel og látið paprikustrimlana og blaðlaukinn út í heita, sigtaða sósuna. Kælið sósuna.
Skerið avókadóin í teninga, blandið saman við rækjur. Hellið kaldri sósunni yfir og blandið vel saman. Setjið salatið á fat, síðan rækjur ásamt avókadóinu og skreytið með tómötum, gúrkum og sítrónum.
AÐALRÉTTUR
Sinnepskryddað nautabuff fyrir 4
800 g nautalund/hrossalund
hvítlaukspipar
olía
1 laukur
u.þ.b. 10 ferskir sveppir í sneiðum
2 paprikur (græn og rauð), skornar í strimla
1 dl rjómi
1 - 2 dl vatn
1 tsk kjötkraftur
2 msk sinnep
græn piparkorn
skvetta af cognac eða sherry
Aðferð:
Skerið kjötið í 3-4 cm þykkar sneiðar, berjið aðeins með hnefanum ofan á sárið. Kryddið með hvítlaukspipar og látið standa í 5-10 mín. Steikið sneiðarnar í olíu á vel heitri pönnu í 3-5 mín. á hvorri hlið. Takið af og setjið inn í álpappír til að halda þeim heitum á meðan sósan er löguð. Laukur, sveppir og paprika eru látin krauma í feiti á pönnunni smá stund. Bætið rjóma, vatni, kjötkrafti og sinnepi á pönnuna, bragðbætið með grænum pipar ef þurfa þykir. Látið sjóða í nokkrar mín. Að lokum er víni bætt út í og sósan bragðbætt.
Kjötið sett á fat og sósunni helt yfir. Borið fram með kartöflum og grænmeti að eigin vali.
EFTIRRÉTTUR
Eplakaka
½ kg epli
sykur eftir smekk
1 dl vatn
150 g brauðmylsna (best heima gerð)
50 g sykur
50 g smjör
rjómi
saxað súkkulaði
Aðferð:
Eplin afhýdd og skorin í bita, soðin í mauk, ásamt sykri og vatni, kæld. Smjörið brætt á pönnu, sykri og brauðmylsnu bætt út í og látið hitna vel og bakast aðeins, kælt. Síðan er þetta sett í lögum í mót, fyrst smá brauðmylsna, síðan eplamauk og til skiptis og endað á brauðmylsnu.
Þeyttur rjómi settur ofan á og saxað súkkulaði.
Best er að láta kökuna bíða yfir nótt og setja síðan rjómann yfir, áður en borið er fram.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.