Ráðherra segir athugasemdir Samkeppniseftirlitsins um verklag ráðuneytis út í hött
Á vef Bændablaðsins er frétt um að Í áliti Samkeppniseftirlitsins um skaðlega samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni sem birt var í gær vegna úrskurðar stofnunarinnar um samruna Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og Mjólku er verklag landbúnaðarráðuneytisins við undirbúning lagafrumvarpa og reglna gagnrýnt harkalega. Í álitinu kemur fram að Samkeppniseftirlitið telur verklagið „samkeppnishamlandi og til þess fallið að vekja tortryggni á markaði um að fulls jafnræðis sé gætt þegar sjónarmið mismunandi hagsmunaaðila eru metin.“
Í áliti Samkeppniseftirlitsins um skaðlega samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni sem birt var í gær vegna úrskurðar stofnunarinnar um samruna Kaupfélags Skagfirðinga (KS) og Mjólku er verklag landbúnaðarráðuneytisins við undirbúning lagafrumvarpa og reglna gagnrýnt harkalega. Í álitinu kemur fram að Samkeppniseftirlitið telur verklagið „samkeppnishamlandi og til þess fallið að vekja tortryggni á markaði um að fulls jafnræðis sé gætt þegar sjónarmið mismunandi hagsmunaaðila eru metin.“
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að Samkeppniseftirlitið ráði í sjálfu sér hvað það sendi frá sér og tjái sig um. „En þetta er náttúrulega fullkomlega órökstutt og gjörsamlega út í hött. Með þessum orðum er ekki aðeins verið að væna ráðuneytið um vanhöld í sinni vinnu heldur einnig Alþingi og nefndir þess við sína vinnu. Mér finnst ekki samboðið opinberri stofnun að hafa uppi svona orð og það væri ráð fyrir Samkeppniseftirlitið að rökstyðja betur sitt mál.“
Menn ættu að fara varlega í að setja fram órökstuddar fullyrðingar
Í álitinu er þeim tilmælum beint til landbúnaðarráðherra að hann beiti sér tafarlaust fyrir afnámi 71. greinar búvörulaga sem heimilar „mjólkurafurðastöðvum samruna og samkeppnishamlandi samráð utan gildissviðs samkeppnislaga.“ Undir þetta hefur Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra tekið í fjölmiðlum. Jón segir að ekki hafi verið tilgreint að þessi heimild hafi valdið framleiðendum eða neytendum tjóni. „Ég held að það sé eins gott að fara yfir það áður en menn fara að breyta þessum ákvæðum, menn skulu alla vega fara yfir stöðuna eins og hún er. Á grundvelli slíkrar úttektar skulu menn svo meta hvort að þörf sé á slíkri breytingu. Ef lög reynast illa er sjálfsagt að endurskoða þau en ég vil þá fá að sjá röksemdir fyrir því að svo sé. Ég hef í sjálfu sér ekkert um orð Gylfa að segja, hann kemur fram á sínum forsendum en það þarf að horfa til margra þátta í þessu. Menn ættu að fara varlega í að setja fram fullyrðingar af þessu tagi án þess að þær séu vandlega rökstuddar.“
Lítið sést til Samkeppniseftirlitsins varðandi fákeppni á smásölumarkaði
Í áliti Samkeppniseftirlitsins er þeim tilmælum jafnframt beint til ráðherra að beita sér fyrir breytigum á búvörulögum með því að sett verði í þau ákvæði sem feli í sér heimild til að skipta upp mjólkurafurðastöðvum til að koma megi við samkeppni í vinnslu og sölu á mjólk og mjólkurafurðum neytendum og bændum til hagsbóta. Jón bendir á að Mjólkursamsalan sé í félagslegri eigu um sjöhundruð bænda og þar séu allir á jafnréttisgrundvelli. „Þetta er ekki sambærilegt til að mynda við fákeppnina á matvörumarkaðinum þar sem smásöluverslunin er í eigu örfárra einstaklinga sem náð hafa fákeppnis- eða einokunarstöðu á markaði. Ég velti fyrir mér til hvaða aðgerða Samkeppniseftirlitið hefur gripið til að setja því skorður. Þetta er þekkt staðreynd sem við höfum verið að glíma við og þar höfum við haft miklar áhyggjur. Það má velta fyrir sér hvernig Samkeppniseftirlitið ætlar að beita sér á þeim vettvangi, það hefur ekki sést mikið til þeirra hvað það varðar.“
Timburmenn ársins 2007
Jón segir að í ljósi þess að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sé sú að samruni KS og Mjólku fari eftir lögum, þá sé álit stofnunarinnar býsna langt og mikið. „Það er val þeirra manna sem eru þarna í forystu. Það má kannski segja að tónninn í þessu áliti sé svona timburmenn ársins 2007 þegar að allar lausnir voru þær sömu. Auðvitað er alveg sjálfsagt að skapa sem best samkeppnisumhverfi hér en við megum ekki gleyma heilbrigðri skynsemi í þessum efnum. Frjáls samkeppni er ekki lögmál per se fyrir sjálfa sig. Ef að okkar kjör og afkoma er best tryggð á félagslegum grunni er það leið sem við eigum að fara.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.