Ráðherra gagnrýnir stjórnendur sjúkrahúsanna

Í fréttum Ríkisútvarpsins í hádeginu í dag var sagt frá því að Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra gagnrýnir stjórnendur sjúkrahúsanna á Blönduósi og á Sauðárkróki og segir að ekki þurfi að loka fæðingardeildinni á Sauðárkróki þrátt fyrir ellefu prósenta niðurskurð á framlögum til stofnunarinnar. Ráðherra segir þetta snúast um forgangsröðun. Íbúar á Blönduósi og á Sauðárkróki hafa mótmælt niðurskurði að undanförnu.

Á fjórða hundrað íbúa á Sauðárkróki og á annað hundrað íbúa á Blönduósi afhentu í síðustu viku heilbrigðisráðherra undirskriftarlista þar sem fyrirhuguðum niðurskurði var mótmælt. Krafa íbúanna er sú að niðurskurðurinn verði ekki meiri en 4% eins og á flestum öðrum stofnunum, en ekki tæplega 11% eins og stefni í til dæmis á Sauðárkróki. Álfheiður segir að hún muni hitta þingmenn kjördæmisins á morgun og fara yfir stöðuna.

Framkvæmdarstjórn Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki hefur metið stöðuna þannig að ef verði af niðurskurðinum, verði fæðingardeild sjúkrahússins lokað. Heilbrigðisráðherra telur að svo þurfi ekki að fara og gagnrýnir framkvæmdarstjórnina fyrir forgangsröðun. Hún segir að menn geti komið rekstrinum inn í ramma fjárlaga án þess að skerða grunnþjónustu – heilsugæslu og það sem hún vill meina að sé nauðsynleg þjónusta við barnshafandi konur og fæðingarhjálp. Hún segir þjónustuna margþætta og tillögurnar séu til skoðunar í ráðuneytinu.

Heimild, Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir