Pósturinn hættir fjöldreifingu á landsbyggðinni 1. janúar 2024
Í tölvupósti sem barst áðan til Nýprents segir að pósturinn hættir alfarið að dreifa fjölpósti frá og með 1. janúar 2024. Fjöldreifingu var hætt á suðvesturhorni landsins árið 2020 en fjölpósti var hins vegar áfram dreift á landsbyggðinni, einkum þar sem ekki var kostur á öðrum dreifingaraðila. Nú hefur hins vegar verið ákveðið að hætta þeirri dreifingu einnig. Þessar breytingar eiga eftir að hafa umtalsverðar þýðingu fyrir útgáfu Sjónhornsins og sérblöðum Feykis eins og Fermingarblaðinu og Jólablaðinu því sá póstur flokkast sem fjölpóstur þar sem hann er ekki merktur viðtakanda og dreift í öll hús á tilteknum svæðum á Norðurlandi vestra.
Einnig segir að fjölpósti hafi verið dreift með almennum bréfum í gegnum tíðina. Hins vegar hefur bréfapóstur dregist saman um 80% frá árinu 2010 svo samlegðaráhrifin eru ekki lengur til staðar. Ákvörðunin hjá Póstinum er því í takt við umhverfisstefnu Póstsins en þau leita stöðugt leiða til að draga úr sóun og losun koltvísýrings.
Frá og með 1. janúar verður eftir sem áður hægt að senda markpóst, t.d. bæklinga og auglýsingaefni, sem almennt bréf en hann mun þá lúta skilmálum bréfa varðandi verðskrá, dreifingarplan og nafnamerkingu. Ef við tökum sem dæmi með Sjónhornið þá kostar það eitthvað um 50 kr. að senda eitt blað í magnpósti en eftir 1. janúar myndi það kosta 290 kr. Þarna er verið að tala um umtalsverða hækkun per blað sem myndi hugsanlega koma niður á verðhækkunum fyrir auglýsendur. Það verður því farið í það á næstu vikum að skoða hvernig útgáfu Sjónhornsins verður háttað í framhaldi af þessum fréttum og þær breytingar sem þarf að gera kynntar fyrir íbúum í dreifbýli í Skagafirði og íbúum í Austur- Húnavatnssýslu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.