Pétur Jóhann Sigfússon sturlaðist af hræðslu þegar móðir hans skellti sér í grænan jólasveinabúning

Suður-Ameríski draumurinn hefur slegið í gegn hjá áhorfendum Stöðvar 2 en þar þeysast tvö lið skipuð þeim Audda og Steinda jr. annars vegar og Sveppa og Pétri Jóhanni hins vegar um Suður-Ameríku í kapphlaupi við tímann og leysa ævintýralegar þrautir. Auk þess koma strákarnir sér í vægast sagt afkáralegar og sprenghlægilegar aðstæður sem eru að sjálfsögðu ætlaðar til að kæta áhorfendur.

Allir vita að Auddi er Króksari fram í fingurgóma og hefur lagt sig í líma við að kynna bæinn fyrir landanum í gegnum tíðina en færri vita að Pétur Jóhann tengist Sauðárkrók sterkum böndum. Á eftirminnilegan hátt veifaði hann fæðingarvottorði sínu af sviðinu í íþróttahúsinu á Sauðárkróki á Króksblóti fyrir fáum árum. Á því stendur að hann er fæddur á Sauðárkróki 21. apríl 1972.

Þannig var að Pétur Jóhann bjó með foreldrum sínum Miklabæ í Akrahreppi þar sem faðir hans var prestur. Hann var þó ekki lengi búsettur í Skagafirði þar sem foreldrar hans, Sigfús Jón Árnason og Jóhanna Sigríður Sigurðardóttir, ákváðu að slíta samvistum og hann flutti suður með móður sinni ungur að árum. En Feykir langaði til að vita hvort hann myndi eitthvað frá Skagafjarðarárunum.

„Við vorum sem sagt fjórir bræður á þessum árum. Sigurður Kári, (1962); Árni Jón, (1969) ég, (1972) og Sigfús (1974). Ég var nú svo ungur þegar ég flutti í borgina, ég held að ég hafi verið fimm ára, þannig að það er ekki mikið sem ég man frá þessum árum. Þær fáu minningar sem ég hef um Skagafjörðinn eru virkilega góðar. Pabbi var prestur á Miklabæ í Blönduhlíðinni í Skagafirðinum og það var alltaf mikið um að vera. Bæði sem tengdist búskap og kirkjunni. Mamma spilaði á orgelið í kirkjunni og fólk kom alltaf eftir Guðsþjónustu og fékk sér kaffi og með því. Það var alltaf mikið fjör man ég.“

Hafa jólin einhverja sérstaka merkingu fyrir þig?
„Ég upplifi jólin voða mikið í gegnum börnin nú orðið. Það er svo gaman að upplifa jól í gegnum börnin. Það er svo mikil spenna í kringum það. Og svo náttúrlega samanber með fjölskyldunni.

Hver er fyrsta minning þín tengd jólum?
„Það er þegar móðir mín skellti sér í grænan jólasveina búning á Miklabænum. Það var svakalegt! Ég gjörsamlega sturlaðist af hræðslu. Enda ekki við öðru að búast. Grænn jólasveinabúningur!“

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin?
„Það er gul snjóþota með bremsum.“

Hvernig eru dæmigerð jól hjá þér í dag?
„Það er bara verið að hafa það eins rólegt og afslappað og hægt er. Allur asi fer illa í mig.“

Hver er uppáhalds jólakökusortin?
„Brún randalína.“

Nú er verið að sýna Suður-Ameríska drauminn á Stöð 2, hvað var skemmtilegast við tökur á honum?
„Við vorum þarna í fjórar vikur. Það er frekar erfitt að setja fingur á eitthvað eitt. Þetta er allt gríðarlega skemmtilegt og algjör forréttindavinna.“

Hvor er meiri Skagfirðingur þú eða Auddi?
„Tja…….nú veit ég ekki. Ég fæ alltaf mikla vellíðunartilfinningu þegar ég kem í Skagafjörðinn. Ég var náttúrulega líka í sveit þar, á Uppsölum í Blönduhlíðinni. En ég veit svo sem ekki með það hvor okkar er meiri Skagfirðingur. Enda kannski erfitt að skera úr um það.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Nei, ég er rosa góður bara . Takk takk.“

Áður birst í 25. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir