Pétur Erlingsson valinn fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2023

Pétur Erlingsson í fallegu lopapeysinni sinni. MYND: Farskóli Norðurlands vestra.
Pétur Erlingsson í fallegu lopapeysinni sinni. MYND: Farskóli Norðurlands vestra.

Um miðjan nóvember hlaut fyrrverandi, og aftur væntanlegur, námsmaður hjá Farskólanum, Pétur Erlingsson, viðurkenningu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem Fyrirmynd í námi fullorðinna árið 2023 ásamt tveimur öðrum; þeim Beatu Justyna Bistula og Ómari E. Ahmed. Viðurkenningin var veitt á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem fram fór 14. nóvember sl. á Grand Hótel undir yfirskriftinni Rík af reynslu – lærum hvert af öðru. Viðurkenningin er veitt fyrir bætta stöðu á vinnumarkaði og í námi og komu tilnefningar víðsvegar að. 

Pétur stundaði nám í Grunnmennt hjá Farskólanum sem er ein af vottuðum námsleiðum FA og verður kennt á vorönn og haustönn 2024. Pétur starfar í dag hjá Sauðárkrókshöfn sem hafnarvörður og er einnig skipstjóri. Farskólinn tók viðtal við hann sem má lesa í Námsvísi Farskólans sem var gefinn út í haust. En einnig hægt að lesa sjálft viðtalið við hann hér. 

Ársfundur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Áherslur ársfundar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins voru að þessu sinni að varpa ljósi á mikilvægi virkrar hæfnistefnu á Íslandi og ávinning fyrir bæði einstaklinga og atvinnulífið. Vitnað var til hæfnistefnu Evrópusambandsins þar sem fram kemur að besta fjárfesting til framtíðar sé fjárfesting í fólki og að hæfni og menntun sé drifkraftur samkeppnishæfni og nýsköpunar. Réttur til símenntunar skipti sköpum. Vinnumarkaðurinn breytist hratt og í mörgum Evrópulöndum er verið að endurmeta leiðir í þjálfun og menntun með inngildingu að leiðarljósi.

Fundurinn hófst á ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Maj-Britt Hjördís Briem, stjórnarformaður Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins fjallaði um færnimat til framtíðar. Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, sagði frá yfirstandandi vinnu við endurskoðun laga um framhaldsfræðslu. Elisabeth Bøe, ráðgjafi í deild færniþróunar í atvinnulífinu hjá Stofnun háskólamenntunar og hæfni í Noregi fjallaði um verkefni og verkfæri til að efla nám fullorðinna og auka þátttöku í símenntun. Að lokum fjallaði Anna Kahlson, sérfræðingur hjá Fagháskólastofnuninni í Svíþjóð, um gildi skilvirks og sveigjanlegs framboðs á færni í tengslum við umbreytingar, endurmenntun og færniþróun í Svíþjóð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir