Pestó kjúklingaréttur og meðlæti
Sigrún Elva Benediktsdóttir var matgæðingur í tbl 5 á þess ári og er Sigrún fædd og uppalin á Sauðárkróki en flutti heim í fyrra sumar eftir að hafa búið síðustu tíu ár í Svíþjóð þar sem hún kynntist barnsföður sínum, Shaher, sem kemur frá Sýrlandi og eiga þau saman tvo stráka.
Hvað varðar matseldina á heimilinu þá hafa þau verið frekar dugleg að prófa sig áfram og gera rétti úr hinum ýmsum áttum, en Shaher er snillingur í arabískri matargerð og fær reglulega að njóta sín í eldhúsinu. Sigrún er meira fyrir að gera rétti sem taka ekki langan tíma að elda en eru þó bragðgóðir og næringarríkir.
Pestó kjúlli
Kjúklingur (best að hafa lundir eða bringur)
2 krukkur af rauðu pestói
1/3 - ½ kassi af ferskum döðlum
½ krukka svartar ólífur
1 krukka fetaostur
kasjúhnetur
steinselja
Aðferð: Hitið ofninn og stillið á 180°C. Kjúklingur settur í eldfast mót, pestói dreift yfir kjúklinginn og síðan er restin af innihaldsefnunum skorið niður og dreift yfir kjúklinginn, fetaostinum er dreift yfir eins og hann er, s.s. ekki skorinn niður. Í þessum rétti er best að hafa nóg af öllu, sérstaklega nóg af pestói, döðlum, ólífum og fetaosti og ekki skera ólífurnar né döðlurnar of smátt. Rétturinn fer síðan inn í ofn og eldaður í 35-45 mín. eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Gott er að bera fram hrísgrjón og salat með þessum rétti.
Hrísgrjón:
Ghee eða smjör
salt eða krydd eftir smekki
Aðferð: Eitt stórt glas af hrísgrjónum sett í skál og vatn yfir. Hrísgrjónin látin liggja í bleyti í 30 mín. -1 klst. áður en byrjað er að sjóða þau. Vatninu er síðan hellt í vaskinn (þetta vatn er s.s. ekki notað meira). Því næst er 1 msk. af Ghee eða smjöri sett í pott og látið bráðna og hrísgrjónin sett í pottinn og þetta hrært saman í smá stund. Gott að setja smá salt yfir. Síðan er 1½–2 glösum af vatni bætt við og sett á hæstu stillingu. Þegar vatnið er næstum allt farið er hitinn lækkaður niður í tvo, smá smjörklípa sett á grjónin og lokið sett yfir pottinn. Þegar vatnið er alveg gufað upp þá eru hrísgrjónin tilbúin. Til þess að gera hrísgrjónin „perfecto“ þá er æðislegt að þurrrista t.d. valhnetur, kasjúhnetur, möndlur (án hýðis) eða/ og salthnetur og leggja yfir hrísgrjónin. Best er að byrja á því að setja hrísgrjónin i vatn áður en byrjað er að matreiða kjúklingaréttinn.
Tabbouleh salat:
¼ -½ glas Bulgur (mjög fínar)
100 g steinselja (slatti af steinselju og helst steinselja með stórum blöðum)
50 g mynta
4 vorlaukar eða 1 rauðlaukur, má líka sleppa
3-4 tómatar
1 gúrka
2-3 sítrónur
1-2 chili, má líka sleppa
3-4 tsk. ólífuolía
1 tsk. salt
Á virkum dögum þá höfum við oftast venjulegt salat með matnum en um helgar eða þegar við fáum gesti til okkar í mat finnst okkur gaman að gera
Tabbouleh sem er mjög ferskt salat frá Miðjarðarhafinu og er mikið borðað í Miðausturlöndum. Það tekur smá tíma að gera salatið en það er alveg þess virði og algjört partý fyrir bragðlaukana. Tabbouleh er steinseljusalat þannig það þarf að hafa nóg af henni.
Aðferð: Byrjað er á því að setja Bulgur í glas og kreista sítrónusafa yfir og blanda þessu saman. Á meðan þetta bíður í glasinu þarf að saxa allt grænmetið mjög smátt. Þegar það er búið þá er grænmetinu og Bulgur blandað saman og salti stráð yfir og ólífuolíunni helt yfir salatið og öllu blandað saman og Voila!
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.