Partýréttir sem aldrei klikka

Matgæðingarnir Guðmundur Henry og Hrefna Dögg. Aðsend mynd
Matgæðingarnir Guðmundur Henry og Hrefna Dögg. Aðsend mynd

Það voru þau Hrefna Dögg Þorsteinsdóttir og Guðmundur Henry Stefánsson á Skagaströnd sem sáu um matarþátt Feykis í 47. tbl. Feykis í desember árið 2018. Þau gáfu lesendum uppskriftir að nokkrum partýréttum sem klikka aldrei. „Fyrsti rétturinn er frá Maju vinkonu,“ sagði Hrefna Dögg, „ég smakkaði hann fyrst þegar ég var hjá henni á áramótunum og tengi ég hann því alltaf við áramótin. Þetta er fljótlegt og ofureinfalt og er gert við hvert tækifæri hjá okkur.“

RÉTTUR 1
Maju lefsur

1 pakki Vestlands lefsa (fæst í flestum búðum)

Ég hef tvenns konar fyllingar í þeim, annars vegar túnfisk og svo reyktan silung.
Ég byrja á því að mýkja lefsurnar. Breiði út plastfilmu sem er aðeins stærri en ein lefsa á borðið , læt kalt vatn renna yfir eina lefsu í einu og passa að það fari vatn á alla lefsuna, báðar hliðar. Stafla svo blautu lefsunum á plastfilmuna. Þegar ég er búin að bleyta þær allar set ég plast yfir og pakka þeim vel inn á meðan ég geri fyllingarnar.

Fylling 1:

2 dósir túnfiskur
majónes
Aromat krydd
laukduft

Aðferð:
Byrjið á því að láta vatnið/olíuna leka af túnfisknum, setjið hann svo á disk og tætið hann vel niður með gaffli. Hrærið svo majónesi saman við þannig að þetta verði eins og salat og kryddið eftir smekk með Aromati og laukdufti.

Fylling 2:

1 flak reyktur silungur (má líka vera lax)
majónes
sýrður rjómi
Aromat
sítrónusafi

Aðferð:
Skerið silunginn niður, mjög smátt, hrærið honum svo saman við majónes og sýrðan rjóma til helminga. Kryddið með Aromati og setjið smá sítrónusafa í fyllinguna.
Ein fylling dugar á um helminginn af lefsunum (sem sagt, fimm lefsur með túnfiskfyllingu og fimm með silungsfyllingu). Smyrjið fyllingunni á hverja lefsu fyrir sig, passið að skilja smá rönd eftir við endann á lefsunum til að loka þeim. Rúllið svo lefsunum upp í lengjur og geymið í ísskáp yfir nótt eða a.m.k. nokkra klukkutíma. Rétt áður en þær eru bornar fram eru þær skornar niður í sneiðar og þeim raðað á bakka. Frábær fingramatur.

RÉTTUR 2
Samlokuteningar

Brauðtertubrauð, eitthvað sem hægt er að skera í teninga (ég nota Ragnars brauðtertubotnana).
Emmenthal eða goudaostur í sneiðum
vænar skinkusneiðar

Rjómaostakrem:

150 g skinka
1 rauð paprika, smátt söxuð
220 g hreinn rjómaostur
2 msk. sætt sinnep
1 tsk. paprikuduft
2 msk. söxuð steinselja
1 msk. blaðlaukur (græni hlutinn) saxaður smátt
sítrónusafi

Aðferð:
Hrærið rjómaostinn mjúkan. Skinkan skorin smátt ásamt paprikunni og blaðlauknum. Allt sett út í rjómaostinn og hrært saman.

Majónesblanda:

100 g majónes
100 g sýrður rjómi
1 tsk. sætt sinnep
sítrónusafi

Hrærið öllu saman. Smyrjið rjómaostakreminu á neðsta brauðið, setjið brauð ofan á, smyrjið það með majónesblöndunni og raðið ostsneiðunum og skinkusneiðunum ofan á hana. Næsta brauð yfir, rjómaostakreminu smurt á það og svo er aftur sett brauð á og majónesblöndunni smurt á með osta og skinkusneiðum yfir. Síðasta brauðið er svo sett yfir, brauðtertan skorin í litla teninga og stungið í gegn með tannstöngli eða skrautpinna.

RÉTTUR 3
Marensrúlla með lakkrístoppatvisti

Marensrúllan:
Byrjið á því að stilla ofninn á 140 gráður.

4 eggjahvítur
3 dl púðursykur
1 poki piparhúðað lakkrískurl

Eggjahvítur og púðursykur þeytt vel saman. Lakkrískurli blandað varlega saman við með sleif.
Smurt á bökunnarpappírsklædda plötu og bakað í 45-50 mínútur. Takið úr ofninum og setjið smjörpappír yfir, snúið við.
Þegar botninn hefur kólnað er fyllingin sett á hann:

Fylling:

½ l þeyttur rjómi, smurður yfir botninn
1 poki Nóakropp með pipar

Botninum er svo rúllað upp.

Lakkríssósan:

1 pakki grænn Ópal
2 msk. flórsykur
2- 3 msk. rjómi

Allt sett í pott og brætt saman við lágan hita, þessu er svo hellt óreglulega yfir rúlluna þegar hún er komin á diskinn sem á að bera hana fram á.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir