Pantaði eitt kíló af flestum litum og fékk tvo fulla ruslapoka
Unnur Sævarsdóttir er fædd og uppalin í Skagafirði og hefur búið með honum Sævari sínum á Hamri í Hegranesi í 33 ár.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir? Ég held að ég hafi byrjað að prjóna og sauma út í handavinnukennslu í barnaskólanum og það voru þær heiðurskonur Friðbjörg Vilhjálmsdóttir (Bíbí) og Sólveig Arnórsdóttir sem kenndu mér að sauma, prjóna og hekla.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Ég elska að prjóna, mér finnst það veita svo mikla slökun og hugarró, en ég hef gaman að öllu handverki og finnst t.d bútasaumur og leðurvinnsla mjög skemmtileg, og frábært þegar hægt er að tvinna það saman. Annars er gert mjög mikið grín að mér í fjölskyldunni því þegar ég fæ áhuga á einhverju nýju þá þarf ég að kaupa allt sem því tilheyrir og helst mjög mikið þar sem ég bý í sveit og get ekkert skotist út í búð ef eitthvað vantar. Ég fékk til dæmis mikinn áhuga á að vinna úr ullarkembu eitt árið og pantaði kembu frá Álafoss en áttaði mig ekki á hvað kemban er létt, ég pantaði eitt kíló af flestum litum og fékk tvo fulla ruslapoka.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Ég er aldrei með eitt verkefni í gangi. Núna er ég að prjóna peysu eftir mynstrinu Skipperinn frá knits.by.linda virkilega skemmtilegt að prjóna þetta mynstur, hekla dúllur í teppi og sauma út.
Hvar færðu hugmyndir? Hér áður fyrr fór ég mikið á bókasafnið og skoðaði bækur og einnig keypti ég mikið af handavinnubókum, en nú er það mest netið, þar finnur maður allt. Ég er í mörgum handavinnuhópum og finnst gaman að skoða hvað aðrir eru að gera.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég held mjög mikið upp á klukkustreng sem ég saumaði þegar ég var 14 ára og hefur hangið upp á vegg hjá mér síðan, en líklegast er ég ánægðust með skírnarkjóla sem ég gerði, annar er heklaður og hinn saumaður.
Áður birst í tbl. 38 Feykis 2022.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.