Ótrúlegur sigur Stólastúlkna á Seltjarnarnesinu

Murielle Tiernan gerði þrennu á síðustu mínútunum í leiknum gegn Gróttu. Hér er hún í leik gegn Völsungi á dögunum. MYND: ÓAB
Murielle Tiernan gerði þrennu á síðustu mínútunum í leiknum gegn Gróttu. Hér er hún í leik gegn Völsungi á dögunum. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls spilaði sennilega einn magnaðasta leik í sögu sinni í gærkvöldi þegar liðið sótti heim Gróttu á Seltjarnarnesið í 2. deild kvenna í knattspyrnu. Þegar upp var staðið voru gerð ellefu mörk í leiknum og þrátt fyrir að hafa verið undir, 5-2, þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum þá bættu stelpurnar við fjórum mörkum á lokakaflanum og tryggðu sér þrjú frábær stig í toppbaráttu deildarinnar. Lokatölur 5-6 fyrir Tindastól.

Það voru varla liðnar tvær mínútur af leiknum þegar hin eldsnögga Vigdís Edda gerði fyrsta mark leiksins. Diljá Aronsdóttir jafnaði metin fyrir Gróttu á 7. mínútu en Vigdís kom Stólunum aftur í forystu á 22. mínútu. Adam var ekki lengi í paradís því það tók Seltirninga aðeins þrjár mínútur að jafna að nýju með marki frá Taciana Da Silva Souza og lið Gróttu komst síðan yfir á 39. mínútu með öðru marki Diljár og staðan 3-2 í hálfleik.

Souza bætti við tveimur mörkum fyrir Gróttu á 48. og 60. mínútu og heimastelpur heldur betur komnar í góða stöðu, staðan 5-2 og Souza komin með hat-trick. Mörg lið hefðu á þessum tímapunkti tapað trúnni á sigur og lagt upp laupana – en ekki Stólastelpurnar! María Dögg minnkaði muninn í 5-3 á 66. mínútu og þá var komið að því að Murielle Tiernan léti ljós sitt skína, en á átta mínútna kafla undir lok leiksins skellti hún í hat-trick. Hún minnkaði muninn í eitt mark á 79. mínútnu, jafnaði leikinn á 85. mínútu og gerði síðan sigurmark leiksins tveimur mínútum síðar.

Þvílíkur karakter hjá liðinu! Með sigrinum styrkti Tindastóll stöðu sína á toppi deildarinnar og góð von til þess að ná sæti í 1. deild næsta sumar. Lið Tindastóls er með 24 stig eftir tíu leiki en Augnablik getur náð Stólunum að stigum ef þær vinna þá tvo leiki sem þær eiga inni á Stólana. Lið Völsungs er með 16 stig eftir tíu leiki en sameinað lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis er í betri stöðu með 14 stig eftir átta leiki. Lið Tindastóls á eftir fjóra erfiða leiki en með svona sigurvilja innanborðs er stelpunum flestir vegir færir.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir