Ósanngjörnum niðurskurði mótmælt

Boðað hefur verið til tveggja mótmælafunda vegna niðurskurðar á Heilbrigðisstofnununum á Sauðárkróki og á Blönduósi nú í dag, föstudag.  Fyrir fundunum standa  annars vegar Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og hins vegar fólk sem staðið hefur fyrir undirskriftasöfnun  til þess að mótmæla  miklum niðurskurði Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi.

En um hvað snýst málið? Og eru þetta réttmæt mótmæli?

Jú, þannig er mál með vexti að ríkisstjórnin ákvað við fjárlagagerð að marka málaflokkum sínum tiltekna fjárlagaramma. Gert var ráð fyrir að skera niður minna á velferðar og heilbrigðissviði, en öllu meira í öðrum málaflokkum. Í sjálfu sér ekki gagnrýniverð nálgun og svipar til þess sem oft hefur verið gert í aðhaldsaðgerðum ríkisins.

Síðan  fylgdi sögunni að ekki ætti að skera niður flatt, sem einnig er skynsamlegt. En sú ákvörðun leggur á hinn bóginn mikla ábyrgð á herðar fagráðuneytum. Niðurskurður sem ekki er flatur verður að vera rökstuddur og á það hefur einmitt skort.

Niðurskurðurinn hlutfallslega mestur á Blönduósi og Sauðárkróki

Niðurskurðurinn sem bitnar svo harkalega á heilbrigðisstofnunum á Blönduósi og í Skagafirði er hlutfallslega miklu meiri en almenna reglan gerir ráð fyrir í heilbrigðismálunum. Niðurskurður í málaflokkum heilbrigðisráðuneytisins  er að jafnaði  5%, en amk. 10 prósent hjá þessum stofnunum.  Niðurskurðurinn á þessum sveimur stofnunum er lang samlega mestur, þegar skoðaðar eru tölur um sambærilegar heilbrigðisstofnanir.

Hvaða skilaboð eru það? Þau eru einföld. Það er greinilega mat heilbrigðisráðuneytisins og ráðherrans að á þessum stofnunum sé verið að halda úti þjónustu sem ekki sé ástæða til.  Er það svo? Er það upplifun íbúanna? Skilaboðin eru bersýnilega að fjárframlög til þessara stofnana séu hlutfallslega of mikil. Þess vegna sé ástæða til að lækka þau. Flóknara er það ekki.

Þessu mati heilbrigðisráðuneytisins erum við að mótmæla sem ætlum að mæta til þessara funda. Við erum ósátt við þetta álit ráðuneytisins og ráðherrans.

Kallað eftir sanngirni og réttlæti

Það gera sér allir grein fyrir að draga þurfi saman seglin. Marg oft hefur komið fram hjá heimamönnum að þeir séu tilbúnir að taka á sig lægri fjárframlög, eins og aðrir. En menn kalla eftir sanngirni og réttlæti.

Það hafa ekki verið sett fram nein sannfærandi rök úr heilbrigðisráðuneytinu  fyrir því að standa þannig að málum að þessar tvær stofnanir taki á sig svona mikinn niðurskurð. Mun meiri niðurskurð en aðrar stofnanir. Allt tal um að ekki eigi að skera niður flatt er í þessu tilviki skálkaskjól til þess að skera niður með óeðlilegum hætti á þessum mikilvægum heilbrigðisstofnunum, sem þar að auki eru  svo gríðarlega mikilvægar stoðir í byggðunum, ekki síst í atvinnulegu tilliti.

Það er þessu sem við mótmælum og það er þessu sem við getum ekki unað. Alls ekki.

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir