Öruggur sigur Stólanna á Kópavogspiltum í Ými
Tindastóll fékk Ými í heimsókn á Sauðárkróksvöll í dag og fóru leikar þannig að heimamenn unnu næsta auðveldan sigur, 4-0. Ýmir er nokkurs konar ódýrari útgáfa af HK úr Kópavogi en eftir ágæta byrjun í leiknum gáfu þeir eftir og Stólarnir gengu á lagið.
Fyrsta markið leit dagsins ljós um miðjan fyrri hálfleik en fram að því höfðu bæði lið átt ágæta möguleika. Konni fékk boltann inn fyrir vörn gestanna og þrumaði boltanum upp í þaknetið með glæsibrag. Ekki leið á löngu þangað til Árni Einar bætti við öðru marki Tindastóls með viðstöðulausu þéttingsföstu skoti úr miðjum teignum eftir glæsilegan undirbúnings tenniskappans Arnars Sig. Sá kappi var í miklu stuði í fyrri hálfleik og plataði bakverði Ýmis ítrekað upp úr skónum og skapaði hvað eftir annað hættulega sénsa fyrir Stólana. Þriðja mark Tindastóls kom skömmu fyrir hlé. Loftur Páll stal boltanum af harðfylgi af bakverði Ýmis, sendi fyrir markið og Ingvi Hrannar varð á undan markmanni Ýmis í boltann, komst framhjá honum og lagðann í markið án vandræða. 3-0 í hálfleik eftir ágætan leik.
Seinni hálfleikurinn var frekar leiðinlegur á að horfa en Stólarnir tóku lífinu með ró. Það var helst að sendingar Árna Einars um völlin þveran og endilangan glöddu augað en fátt markvert gerðist í síðari hálfleik annað en að Ingvi Hrannar skóflaði boltanum í markið eftir skalla frá Bjarka og gleðigjafinn og knatttæknirinn Marri fékk að spreyta sig síðustu mínúturnar.
Lokatölur 4-0 og Stólarnir fara vel af stað í C-riðli 3. deildar, búnir að vinna fyrstu þrjá leikina og markatalan klassísk, 10-0.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.