Öruggur sigur gegn Fram í síðasta æfingaleik Stólastúlkna
Kvennalið Tindastóls lék síðasta æfingaleik sinn fyrir komandi keppnistímabil í gær en þá heimsóttu Stólastúlkur lið Fram en Óskar Smári Haraldsson frá Brautarholti er annar þjálfara Framliðsins og var einmitt annar þjálfara Tindastóls sl. sumar í Pepsi Max. Lið Fram spilar í 2. deildinni í sumar og reyndust Stólastúlkur helst til of stór biti en leikurinn endaði með 1-7 sigri Tindastóls.
Byrjunarlið Tindastóls var þannig að Amber var i marki, Arna Kristins. Bryndîs og Kristrún miðverðir, Maria og Lara vængbakverðir, Hrafnhildur Björns og Hannah á miðjunni en frammi voru Aldís. Murr og Hugrún. Á bekknum voru Sólveig Birta sem kom inn á í hálfleik, Anna Margrét lék 30 mínútur og Birna María 10 mínútur.
Það voru Murr (2), Aldís (2), Hannah, Arna Kristins og Hrafnhildur sen gerðu mörk Tindastóls. „Við vorum töluvert sterkara liðið á vellinum og spiluðum mjög vel. Færðum boltann vel á milli kanta og sköpuðum mörg góð færi og skoruðum góð mörk. Það var gaman að mæta Óskari Smára og hans liði sem er i mótun og verður gaman að fylgjast með hans góða starfi,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði frétta af leiknum. Hann sagði jafnframt að það kæmi í ljós á næstu dögum hvort það tekst að styrkja hópinn frekar fyrir sumarið.
Næsti leikur er á móti Guðna Einars og HK í Mjólkurbikarnum en sá leikur verður á Króknum nk. laugardag og hefst kl. 14:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.