Öruggur 22 stiga sigur í unglingaflokki.
Strákarnir í unglingaflokki Tindastóls í körfubolta léku sinn annan heimaleik í deildinni á laugardag. Mótherjarir voru sunnlendingarnir í Laugdælum. Stólarnir sigruðu leikinn 77 - 55. Stigahæstur Stóla var Halldór Halldórsson, eða Halli Dóra, með 21 stig.
Hópurinn hjá Tindastóli innihélt: Sigga, Loft, Pálma, Tobba, Einar, Tryggva, Hreinsa, Reynald, Halla, Sigmar og Hákon.
Tindastóll byrjaði leikinn betur og komst í 7 - 2. Laugdælir náðu að minnka muninn í tvo stig í stöðunni 11 - 9, en þá lokuðu Stólarnir körfunni hjá sér og skoruðu sjálfir síðustu níu stig leikhlutans. Staðan að honum loknum 20 - 9.
Meira jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Tindastóll leiddi mest með 16 stigum, en Laugdælir söxuðu á forskotið öðru hverju. Í hálfleík var staðan 40 - 25. Axel þjálfari keyrði á flestum sínum leikmönnum í hálfleiknum og voru átta af þeim komnir á blað í hléinu. Hreinsi var með 9 stig í fyrsta leikhluta, en síðan tók Halli við í þeim öðrum og skoraði 8 stig.
Laugdælir hófu síðari hálfleik af meiri krafti en heimamenn og minnkuðu muninn í 11 stig í stöðunni 44 - 33. Þá gáfu Stólarnir aftur í og settu muninn í mest 18 stig, en Laugdælir löguðu stöðuna aðeins í lok þriðja leikhluta og því var bilið enn 15 stig þegar einn fjórðungur var eftir.
Stólarnir bættu heldur í síðasta leikhlutann og unnu hann 19 - 12 og gestirnir kannski orðnir þreyttir þar sem þeir mættu bara með 7 leikmenn. Þeir héldu þó í Stólana lengst af leikhlutanum en staðan var 70 - 55 þegar stutt var eftir. Sjö síðustu stigin voru Tindastólsdrengja og þar af var þriggja stiga flautukarfa frá Tobba. Lokatölur 77 - 55.
Stigaskor Tindastóls: Halli 21, Sigmar 13, Hreinsi 9, Loftur 8, Tobbi 8, Hákon 6, Tryggvi 3, Pálmi 3, Reynald 2, Siggi 2, Einar Bjarni 2,
Laugdælir: Anton Kárason 21, Arnór Hermundarson 18, Sigurður Hafþórsson 12, Aron Skaftason 4, en Daníel Jóhannsson, Baldur Samúelsson og Örvar Þorláksson náðu ekki að skora.
Tindastóll er með 2 stig eftir fjóra leiki, en næsti leikur er heimaleikur gegn Val þann 7. nóvember.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.