Örugg tækninotkun barna

saftSAFT  - Samfélag, fjölskylda og tækni, vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi, hefur stofnað ungmennaráð.

 

Ungmennaráðið samanstendur af krökkum á aldrinum 12-18 ára sem koma alls staðar að af landinu. Ráðið mun meðal annars vinna að hugmyndum um hvernig eigi að kenna ánægjulega og örugga netnotkun í skólum landsins, koma að hönnun kennsluefnis, vera ráðgefandi um hönnun og framkvæmd herferða, sinna jafningjafræðslu og halda erindi á foreldrafundum.

 

Allir sem eru í ráðinu hafa áhuga á netinu og öllum þeim möguleikum sem það hefur upp á að bjóða og geta unnið með öðrum í því að gera netið að öruggari stað fyrir okkur öll. Ungmennaráðið hittist einu sinni á ári þar sem skoðuð er nýjasta tækni og málin rædd. Ráðið mun einnig halda fjarfundi fjórum sinnum á ári, þá með aðstoð tölvutækninnar. Fulltrúar ráðsins sitji einnig árlegan Evrópufund ungmennaráða.

 

Ungmennaráð er þegar á Facebook, Myspace og á MSN þar sem ráðgjafar úr ráðinu veita ráðgjöf og umsögn um netið, farsíma og tölvuleiki. Fjölmiðlar hafa einnig aðgang að ungmennaráði til þess að leita eftir upplýsingum og áliti ungs fólks á öllu sem viðkemur nýmiðlum.

 

Ungmennaráð skorar á skólastjórnendur að halda sérstaka þemaviku næstkomandi haust um jákvæða og örugga netnotkun. Meðal verkefna sem ungmennaráð mun útfæra nánar fyrir þemavikuna eru nemendasamkeppni um gerð jafningjafræðsluefnis (t.d. myndbönd, plaköt, fyrirlestrar og leikrit).

 

  SAFT verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB. Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli - landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu og framkvæmd verkefnisins að öllu leyti fyrir Íslands hönd. Nánari upplýsingar má finna á www.saft.is.

Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir