Örn og Hildur taka við rekstri Hótel Blönduóss
Hótel Blönduós var opnað að nýju eftir gagngerar breytingar síðastliðið vor. InfoCapital ehf., fjárfestingafélag í eigu Reynis Grétarssonar og viðskiptafélaga, hefur frá haustinu 2022 staðið að uppbyggingu í gamla bænum á Blönduósi. Nú þegar sér fyrir endann á framkvæmdunum hefur verið ákveðið að eigendur og rekstraraðilar Hótels Laugarbakka taki að sér rekstur Hótels Blönduóss og annarra eigna sem eru hluti af verkefninu.
Í frétt á Húnahorninu segir að samningurinn sé til þriggja ára, með möguleikum á að lengja eða stytta tímann en þetta kemur fram í tilkynningu frá InfoCapital.
Í henni segir Reynir Grétarsson: „Markmið mitt og félaga minna var að hefja Gamla bæinn til virðingar, með blómlega starfsemi á hótelinu sem kjarnann. Við höfum hins vegar minni þekkingu á rekstri ferðaþjónustu og ákváðum því að leita til aðila á svæðinu sem gert hefur frábæra hluti. Við erum mjög ánægð með að fá Örn og Hildi til að taka við rekstrinum og vonumst til að hann gangi vel og að við getum útvíkkað samstarfið með því að bæta fleiri eignum við verkefnið síðar."
„Við hjónin erum bæði ánægð og spennt að taka við þessu glæsilega hóteli sem svo vel hefur tekist til við að endurreisa. Endurreisn Hótel Blönduóss og gamla bæjarhlutans á Blönduósi færir nýtt líf í þennan yndislega stað. Veislu- og viðburðastaðurinn Krúttið mun auðga menningarlífið á Blönduósi og auka við fund-a og ráðstefnumöguleika á svæðinu. Um leið og við þökkum það traust sem eigendur Hótel Blönduóss sýna okkur hjónum, bjóðum við gesti velkomna til okkar á þetta frábæra hótel," segir Örn Arnarson einn af eigendum Hótels Laugarbakka.
Þungamiðjan í framkvæmdum InfoCapital var að gera gagngerar endurbætur á Hótel Blönduósi auk þess sem gamla bakaríinu, Krúttinu, var breytt í veislusal. Aðrir hlutar verkefnisins eru meðal annars Pétursborg, næst elsta hús Blönduóss, sem verður með fimm lúxusíbúðum sem verða hluti af rekstri hótelsins. Fjárfesting InfoCapital nemur um 600 milljónum króna.
Heimild: Húnahornið
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.