Orkuskot inn í daginn og besta ídýfan, auðveldur fiskréttur og baunaréttur

Matgæðingurinn Sigfríður Eggertsdóttir.
Matgæðingurinn Sigfríður Eggertsdóttir.

Sigfríður Eggertsdóttir og Guðjón Valgeir Guðjónsson á Hvammstanga voru matgæðingar Feykis í 10. tbl. 2017. Þau buðu upp á uppskriftir að orkuskoti inn í daginn og bestu ídýfunni, auðveldum fiskrétti og baunarétti. 
Það er Sigfríður sem hefur orðið: „Þó ég sé nú stolt bóndadóttir og meiri hluti fjölskyldunnar stundi fjárbúskap, elda ég sjaldan rautt kjöt núorðið.  Það er þó ekki gert af ásettu ráði, heldur er nú bara smekkur mannanna misjafn. Fiskur, kjúklingur, grænmetis- og baunaréttir og súpur eru oftast í boði á minu heimili.

Fyrst gef ég uppskrift af safa, eða orkuskoti, sem ég bý til og á alltaf til í ísskápnum og síðan ídýfu sem er mjög góð og hollari en margt annað, geri hana oft um helgar, fyrir saumaklúbbinn og við ýmis tækifæri. Næst er auðveldur fiskréttur sem ég elda oft. Hann er góður og fljótlegur og hægt að nota ýmiss konar fisk eða kjúkling. Síðan er það baunaréttur og heimagert quacamole.  Nota oft líka sama grunn en skipti út baunum fyrir fisk eða kjúkling.

 

RÉTTUR 1
Orkuskot 

1 greip
3 appelsínur
1 pk. gulrætur
2 cm túrmerikrót
1 msk hörfræjaolía
svartur pipar 

Aðferð: Sett í gegnum safapressu og sigtað. Geymist í ísskáp í u.þ.b. 5 daga. 

RÉTTUR 2
Ídýfa með nachosflögum

1 stór dós kotasæla
1 krukka salsasósa 

Aðferð: Hrært saman og sett í botninn á eldföstu móti. Paprikur í alls konar litum, gúrka (taka kjarnann), avokado og púrrulaukur saxað smátt og sett ofan á.

RÉTTUR 3
Fiskréttur (hægt er að nota hvaða fisk sem er)

Rótargrænmeti að eigin vali, brytjað smátt og sett í eldfast mót, mitt uppáhald er sætar kartöflur, sellerírót og rauðrófa.
Olívuolía sett yfir og sett í ofn við 180° í 20 mínútur. Tekið út og næst er spínat sett yfir, magn að vild. 
Fisknum (ófreðnum) raðað yfir spínatið og saltað og piprað. Síðan er 1 lítil krukka,( ja, eða stór) af fetaosti í olíu hellt yfir.
Sett aftur í ofninn og haft í ca 20 mín....passið að ofelda ekki fisk. 

RÉTTUR 4
Indverskur baunarétttur með heimagerðu quacamole 

4 hvítlauksrif
1 laukur
1 chili aldin, fræhreinsað
2 cm engiferrót

Aðferð:
Sett á pönnu með olíu og látið malla á vægum hita. Kryddað með góðri teskeið af túrmerik, karrí, garam masala, cumin og kanil.

2 gulrætur, saxaðar smátt
1 rauð paprika, söxuð smátt
1 gul paprika, söxuð smátt
½ haus spergilkál,  saxað smátt

Grænmeti bætt á pönnuna og látið malla áfram.

1 ds kjúklingabaunir, skolaðar
1 ds svartar baunir, skolaðar
1 ds Hunts sause (með söxuðum tómötum)

Bætt á pönnuna og látið malla þar til grænmetið er orðið meyrt. Borðist með taco pönnukökum, grænu salati, heimagerðu quacamole og sýrðum rjóma. 

RÉTTUR 5
Heimagert quacamole

4 stk lárperur, mjúkar
safi úr einu lime
olívuolia
ferskur kóriander
salt og svartur pipar

Mixað saman.

Verði ykkur að góðu. 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir