Opinber hugleiðing um heilbrigðisráðherra og ráðuneyti hennar
Þar sem ekki hafa borist nein svör við síðasta opinbera bréfi okkar til Álfheiðar heilbrigðisráðherra, þá höfum við ákveðið að gera eina tilraun enn til að ná eyrum hennar. Undirskriftarhópurinn á Blönduósi gerir aðra tilraun.
Það er auðvitað deginum ljósara að við erum ekki hátt skrifuð hjá háttvirtum heilbrigðisráðherra, allavega telur hún algerlega ónauðsynlegt að svara fyrirspurnum okkar, sama hvar við setjum þær fram. En við megum ekki gefast upp því það virðist vera þannig að reynt sé til þrautar, hjá allavega heilbrigðisráðuneytinu, að hunsa fyrirspurnir og standa ekki við gefin loforð um svör, í trausti þess að við gefumst upp og sættum okkur við orðinn hlut. En krafa okkar er enn hin sama, að farið verði yfir niðurskurðinn til HSB fyrir árið 2010, sem var í hróplegu ósamræmi við sambærilegar stofnanir og fá skýr svör og útskýringar á þeim forsendum sem ráðuneytið gaf sér þegar niðurskurðarprósenta HSB var ákveðin. Það þarf að vera búið að fara yfir niðurskurð fyrir árið 2010 og skoða til fulls hvort hann var forsvaranlegur, áður en farið verður að vinna við fjárlög næsta árs því ekki er annað að heyra en svipaður niðurskurður sé í vændum á næsta ári, og hvar á þá að skera niður? Það er ekkert eftir og það gleymdist nú að gera ráð fyrir ýmsu við síðustu fjárframlög!
En það er ekki nóg með að við viljum svör við þeim spurningum sem við höfum sett fram, heldur höfum við líka okkar hugmyndir um hvernig mætti ná fram betri hagræðingu á komandi ári og hvernig betur mætti nýta t.d. auð sjúkrarúm ofl. Við lítum svo á að þó við séum ekki að svigna undan gráðum, þá séum við ekki síðri til að koma fram með hugmyndir um hvað betur mætti fara og gætum því haft vissa innsýn í starfsemina hjá HSB. Það hafa án efa margar krónurnar farið í það að borga ráðgjafafyrirtækjum þóknun fyrir það að fara á milli ríkisstofnanna, til þess að leita leiða til að hagræða, bæta lélegan starfsanda og fá hugmyndir frá þeim sem þar vinna. Ósjaldan höfum við verið beðin um að koma með hugmyndir að nýtingu og/eða hagræðingu sem svo virðist engu skila. Til hvers er verið að eyða pening í þetta ef aldrei stóð svo til að nýta það sem við höfuðum fram að færa.
Við viljum líka halda áfram að hvetja þingmenn okkar og sveitarstjórnir ásamt verkalýðsfélögum til að láta sig málið varða og leggja þessu máli lið, ekki síst viljum við hvetja starfsmenn heilbrigðisstofnanna annarsstaðar á landinu, þar sem niðurskurður heilbrigðisráðuneytisins setur samfélagið og íbúa þeirra í stór hættu, til að gera vart við sig og tjá sig um þessi mál.
Við ætlum að halda áfram að láta í okkur heyra, við ætlum að hvetja fólk til að láta sig málið varða og við ÆTLUM að láta rödd okkar heyrast!
Bóthildur Halldórsdóttir, Einar Óli Fossdal, Margrét Hólmsteinsdóttir og Anna Kr. Davíðsdóttir.
Undirskriftarhópurinn á Blönduósi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.