Ópera Skagafjarðar frumsýnir á Uppstigningardag

Meðlimir Óperu Skagafjarðar á sýningu.

Ópera Skagafjaðrar frumsýnir óperuna Rigoletto eftir G. Verdi í Miðgarði fimmtudaginn 21. maí kl. 20:30.

Ópera Skagafjarðar var stofnuð síðla árs 2006 og var La Traviata fyrsta verkefni Óperu Skagafjarðar, sýnd víðs vegar um landið við góðar undirtektir árin 2007-2008.

Ópera Rigoletto er ein þekktasta og vinsælasta ópera G. Verdi. Uppsetningin er sambland af leik, söng og tónlist. Verkefnið hefur átt sér langan aðdranganda en byrjað var að æfa óperuna á síðasta ári. Á sæluvikunni í fyrra voru valdar perlur úr verkinu teknar upp og gefnar út á geisladisk. Keith Reed stjórnaði 14 manna kammerhljómsveit, hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem lék undir á disknum. Hægt er að kaupa diskinn í Skagfirðingabúð og á sýningum Óperu Skagafjarðar.

Að verkefninu stendur Ópera Skagafjarðar en í Óperu Skagafjarðar er áhugafólk um þátttöku og uppsetningu á óperum og klassískri tónlist. Þetta fólk kemur víðs vegar að, þó flestir úr Skagafirði. Guðrún Ásmundsdóttir leikkona og leikstjóri er okkur innan handar með leikstjórn og verður auk þess í hlutverki sögumanns. Pamela De Sensi verður stjórnandi tónlistar og kórs og  Aladár Rácz píanóleikari. Alexandra Chernyshova er listrænn stjórnandi verkefnisins og hefur borið hitann og þungann af undirbúning verkefnisins sem hefur tekið um eitt ár. Fjölmargir einsöngvarar koma síðan að verkefninu og kór Óperu Skagafjarðar.

Með helstu hlutverk í Rigoletto fara:

Rigoletto – Þórhallur Barðason, baritón

Duca – Sigurður Þengilsson, tenór

Gilda – Alexandra Chernyshova, sópran

  Miðaverð er kr. 2900, forsala er á www.midi.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir