Ofnbakaður teriyaki silungur og marengsrúlluterta
Matgæðingar í tbl 20, 2021, voru þau Vigdís Elva Þorgeirsdóttir, leiðbeinandi við Höfðaskóla á Skagaströnd og kennaranemi við Háskóla Íslands, og eiginmaður hennar, Þröstur Árnason sjómaður á Drangey SK-2. Þau eiga saman fjögur börn á aldrinum 8 til 20 ára og búa á Skagaströnd.
AÐALRÉTTUR
Ofnbakaður teriyaki silungur
U.þ.b. 800 g silungur (bestur beint úr Hnausatjörninni)
1 msk. ólífuolía
1 tsk. smjör
salt og pipar
6-8 msk. teriyakisósa
1 hvítlauksrif
2 stilkar vorlaukar
6 msk. hreinn fetaostur
slatti af ristuðum sesamfræjum
Aðferð: Hita ofninn í 180°C. Setja silunginn í eldfast mót. Saxa hvítlauk og vorlauk mjög smátt og blanda saman við teriyakisósuna. Pensla fiskinn með sósunni, meira er betra. Strá svo ristuðum sesamfræjum yfir og elda í ofni í u.þ.b. 8-10 mínútur. Þegar fiskurinn er að verða tilbúinn er gott að mylja fetaostinn yfir. Gott með fersku salati og hrísgrjónum.
EFTIRRÉTTUR
Marengsrúlluterta
4 eggjahvítur
2 dl sykur
½ dl púðursykur
Kornflex eða Rice Krispies ef vill
Aðferð: Allt hrært saman þar til blandan verður stífþeytt. Ef þið ætlið að setja Rice Krispies eða kornflakes út í er það gert núna og hrært saman með sleif. Smurt á bökunarplötu og sett inn í 135°C heitan ofn og bakað í 40-50 mínútur. Botninum er hvolft á annan smjörpappír og látinn kólna aðeins. Inn í þetta set ég oftast:
½ l þeyttur rjómi
1 plata af karamellufylltu súkkulaði
1 dós ferskjur
Aðferð: Skerið súkkulaðið og perurnar og setjið saman við rjómann. Rjómablandan smurð á allan botninn og svo er rúllað. Gott að setja heita íssósu frá Kjörís ofan á til skrauts. Skotheld terta sem hægt er að borða nánast strax og búið er að setja á hana.
Þau skoruðu á Guðrúnu Elsu Helgadóttur og Arnar Ólaf Viggósson.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.