Nýtt pípuorgel í Blönduóskirkju
Á Húna.is er sagt frá því að þessa dagana er unnið að uppsetningu á nýju orgeli í Blönduóskirkju. Áætlað er að uppsetningin taki nokkrar vikur en þá tekur við stilling og vígsluathöfn sem að öllum líkindum haldin í byrjun nóvember.
Það er Björgvin Tómasson, orgelsmiður sem hannaði og smíðaði orgelið en upphaf smíðinnar má rekja aftur um tvö ár er samningur um smíðina var undirritaður. Orgelið verður 21 radda með rétt rúmlega 1200 pípum og er þetta fimmta raddflesta orgelið sem Björgvin smíðar en hann hefur smíðað yfir 30 orgel sem eru víðsvegar um landið s.s. í Digraneskirkju, Grenivíkurkirkju, Breiðholtskirkju, Seltjarnarneskirkju, Bessastaðakirkju, Hjallakirkju og Grindavíkurkirkju.
Björgvin Tómason nam orgel- og harmóníusmíði í Þýskalandi á árunum 1978 til 1983 en þá lauk hann sveinsprófi frá Orgelbau Fachschule Ludwigsburg og starfaði hjá meistara sínum til júlí 1986.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.