Nýr slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Húnaþings Vestra
Valur Freyr Halldórsson hefur tekið við starfi slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Húnaþings vestra. Á vefsíðu Húnaþings vestra kemur fram að Valur hefur víðtæka reynslu af störfum sem slökkviliðsmaður og bráðaliði.
„Valur hefur víðtæka reynslu af störfum sem slökkviliðsmaður og bráðatæknir. Hann hefur lokið námi frá Sjúkraflutningaskólanum og hefur löggildingu til að starfa sem sjúkraflutningamaður EMT-B/EMT-I. Hann hefur einnig lokið námi frá Brunamálaskólanum og hefur löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmaður. Hann hefur lokið Bs námi í hjúkrunarfræði og hefur löggildingu til að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Jafnframt hefur hann lokið bráðatækninámi frá National Medical Education and Training Center í Boston og hefur löggildingu til að starfa sem bráðatæknir. Hann starfaði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður við Slökkvilið Akureyrar á árunum 2002-2022 og var aðstoðarvarðstjóri hluta þess tíma á árunum 2007-2010 og á árinu 2022. Hann starfaði sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild á árinu 2016. Frá 2016 til 2022 starfaði hann sem verkefnisstjóri hjá Sjúkraflutningaskólanum í hlutastarfi og frá 2022-2023 sem fag- og verkefnisstjóri skólans í fullu starfi. Hann hefur jafnframt starfað sem leiðbeinandi hjá Rauða krossinum (frá 2005), Sjúkraflutningaskólanum (frá 2006) og hjá Evrópska endurlífgunarráðinu sem ILS/ALS – EPILS/EPALS leiðbeinandi (frá 2012).
Við bjóðum Val velkominn til starfa hjá Húnaþingi vestra og þökkum fráfarandi slökkviliðsstjóra, Jóhannesi Kára Bragasyni, vel unnin störf,“ segir á vef Húnaþings vestra.
Þess má til gamans geta að Valur Freyr er ekki bara með víðtæka reynslu af störfum sem slökkviliðsmaður og bráðaliði, heldur er hann líka Hvanndalsbóðir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.