„Núna er þetta undir okkur sjálfum komið og engum öðrum"
-Það höfðu ekki margir trú á okkur nema við sjálfir eftir upphafsmínúturnar, sagði Karl Jónsson í spjalli við Feyki eftir sigurleikinn gegn Snæfelli í kvöld. -Strákarnir sýndu stórkostlegan karakter þegar við unnum þetta upp og ungu pungarnir áttu frábæra innkomu.Svo komu þeir ferðalangar Svavar og Axel með dýrmætar mínútur í seinni hálfleik.
-Heilt yfir var það liðsheildin sem var að virka í vörninni og þegar varnarleikurinn smellur þá verður allt miklu léttara í sókninni. Cedric tók leikinn yfir sóknarlega á tímabili og var hreint út sagt frábær.
-Þessi leikur hlýtur að veita okkur þá hvatningu sem við þurfum til að klára mótið með sæmd. Við höfum glímt við ýmsa erfiðleika í vetur og þrátt fyrir það eigum við ennþá möguleika á að ná markmiði okkar sem er að komast í úrslitakeppnina. Þetta eru frábærir strákar sem forréttindi er að vinna með og núna berjum við okkur saman fyrir síðustu leikina því núna er þetta undir okkur sjálfum komið og engum öðrum, sagði Kalli kampakátur að leik loknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.