Nú þarf að kjósa um framtíðina, ekki fortíðina!
Um næstu helgi ganga landsmenn til kosninga og velja sér þá flokka og einstaklinga sem þeir treysta best til að leiða íslenskt samfélag út úr þeirri erfiðu stöðu stöðu sem nú er uppi. Ég hef orðið var við það á ferðum mínum um kjördæmið að margir sem hafa stutt Sjálfstæðisflokkinn ætla að sitja heima, skila auðu eða jafnvel kjósa einhvern annan flokk í þetta skiptið „til að refsa Sjálfstæðisflokknum“!
Í þessu samhengi, og til að telja fólki hughvarf, vil ég benda á að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengið í gegnum endurnýjun. Ég viðurkenni fúslega að þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi verið forystuflokkur í ríkisstjórn og Sjálfstæðismenn stýrt helmingi ráðuneyta ber flokkurinn verulega ábyrgð á því sem miður hefur farið við stjórn landsins. En ég minni á að orsakir yfirstandandi kreppu verða aðeins að litlu leyti raktar til stjórnvalda hér á landi og að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengist við ábyrgð sinni. Það er búið að kjósa nýjan formann, endurnýjun hefur orðið á framboðslistum flokksins og hreinskiptið uppgjör átti sér stað á landsfundi. Það að ætla að refsa Bjarna Benediktssyni, nýjum formanni, fyrir aðgerðir, eða aðgerðaleysi fyrri forystu er ekki skynsamlegt á víðsjálverðum tímum. Það sem skiptir íslenskt samfélag mestu máli núna er að til verka veljist þeir stjórnmálamenn sem líklegast er að vinni okkur út úr núverandi stöðu hratt og örugglega.
Ég hef sagt að næsta ríkisstjórn þurfi í meginatriðum að hafa tvo eiginleika til að bera, annars vegar að geta tekið erfiðar ákvarðanir, hins vegar að standa með atvinnulífinu. Trakteringar Vinstri-Grænna í garð Helguvíkurverkefnisins annars vegar og hvalveiða hins vegar, svo tvö dæmi séu nefnd, eru með þeim hætti að augljóst er að Vinstri-Grænir hafa ekki skilning á tengslum atvinnulífs við hag heimila í landinu. Það þarf raunverulegar aðgerðir, sem skila raunverulegum störfum. Sjálfstæðisflokknum er einfaldlega best treystandi til að skilja að litlu skiptir hvað gert er fyrir heimilin í landinu ef fyrirtækin standa ekki í lappirnar. Aðgerðaleysisríkisstjórnin sem nú situr virðist einfaldlega ekki skilja þetta samhengi.
Aðeins einn trúverðugur kostur fyrir efasemdarmenn í Evrópumálum!
Sú undarlega staða er komin upp, eftir að ljóst er orðið að Samfylking og Vinstri-Græn séu þegar búin að semja um áframhaldandi stjórnarsamstarf, að Sjálfstæðisflokkurinn er eini valkosturinn sem efasemdarmenn um inngöngu í Evrópusambandið hafa. Það trúir því auðvitað ekki nokkur maður að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna gangi ekki til aðildarviðræðna strax eftir kosningar. Það er augljóst að Vinstri-Grænir hafa lúffað í Evrópusambandsmálinu og þar með sett hagsmuni bænda og sjávarútvegs í uppnám.
Áfram – fyrirtækin og heimilin saman.
Ég hvet kjósendur til að fylkja sér um Sjálfstæðisflokkinn. Það hefur mikið gengið á undanfarið, en eins og ég sagði fyrr í greininni, nú verðum við að kjósa um leiðir til framtíðar þrátt fyrir að sumir vilji kjósa um fortíðina. Við þurfum að velja þá til forystu sem líklegastir eru til að vinna okkur hratt út úr núverandi þrengingum, fyrirtækin og heimilin saman. Endurnýjuðum Sjálfstæðisflokki er treystandi til að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að koma íslensku samfélagi á réttan kjöl.
Setjum X við D á kjördag!
Bergþór Ólason
5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í NV.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.