Notkun farsíma í námi og kennslu
Menntaskóli Borgarfjarðar, Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Síminn hafa gert með sér samkomulag um samvinnu og samstarf við að þróa notkun farsíma í námi og kennslu. Vinnuheitið á verkefninu er „Nám á ferð og flugi“.
Megintilgangur með samstarfsverkefninu er að kanna með hvaða hætti hagkvæmt sé að nýta sér nútíma farsímatækni í námi og kennslu. Leitast verði við að kanna leiðir og þróa aðferðir, bæði kennslu- og viðskiptafræðilega. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki þrjú ár.
Skólarnir munu nýta sér farsímatækni t.d. við útikennslu og söfnun gagna í raunvísindagreinum, s.s. náttúrufræði, landafræði og jarðfræði en einnig á nýjum námsbrautum, s.s. í ferðamálafræðum. Kannaðir verði möguleikar á notkun farsíma í ýmsum greinum. Má þar nefna tungumálum, bókmenntum, sagnfræði, samfélagsfræði og íþróttum.
Stefnt verður að nýtingu farsíma í námi nemenda með fötlun og skerta námsgetu. Þetta verður gert þannig að safnað verður gagna með hjálp farsímatækni á vettvangi og þeim síðan komið fyrir í tölvum og á netinu. Teknar verða ljósmyndir, myndbönd og hljóð með farsímunum. Hugmyndin er síðan sú að nægt sé að nálgast þetta efni á netinu og í farsímum. Til að mynda geti ferðamenn eða aðrir sem vilja fræðast um svæðið fengið upplýsingar um staði og náttúru, þar sem þeir eru staddir á, í gegnum farsímann sinn. Einnig er hugmyndin að þróa ýmis forrit fyrir farsíma og nota GPS tæknina til staðsetningar og setja upp orðabækur, glósubækur og námsefni fyrir farsímana. Möguleikarnir eru því nær óþrjótandi. Verkefnið verður unnið í nokkrum áföngum á næstu þremur árum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.