Norræna velferðarstjórnin?
Það er áhugavert að fylgjast með hvernig ríkisstjórn sem þykist kenna sig við norræna velferð, beitir niðurskurðarhnífnum með eins ósanngjörnum hætti og raun ber vitni. Verst verður landsbyggðin að sjálfsögðu úti enda verður seint sagt að þessi ágæta ríkisstjórn sé ríkisstjórn allra landsmanna og alls ekki landsbyggðarinnar eins og sjá má af verkum hennar.
Við undirbúning fjárlagafrumvarpsins sem lagt verður fyrir Alþingi innan tíðar hefur niðurskurðarhnífnum verið beitt af áður óþekktum groddaskap og hugsunarleysi gagnvart afleiðingunum. Eftir verk þessarar ríkisstjórnar getur því orðið sviðin jörð víða um land. Menn sjá að sjálfsögðu ekki ástæðu til að hlúa að stofnunum út á landsbyggðinni sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélög sem eru í stöðugri vörn eins og sjá má í Norðvesturkjördæmi.
Ráðherra ríkisstjórnarinnar, Jón Bjarnason, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra og þingmaður NV-kjördæmis, fór mikinn í kosningabaráttunni í vor og sagði að ekki kæmi til greina að skera niður á landsbyggðinni því þar væri hagvöxtur búinn að vera neikvæður í langan tíma. Hvar er Jón Bjarnason núna þegar þarf að verja landsbyggðinna?
Ríkisstjórnin kýs í sumum tilvikum að auka við útgjöld á höfuðborgarsvæðinu en draga úr framlögum annars staðar á landinu enda kemur engum heilvita manni til hugar að þessi ríkisstjórn styðji við bakið á landsbyggðinni. Lítum nú á dæmi.
- Framlög til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi er skorið niður um 10,1% ,
- Á Sauðárkróki er framlag sjúkrahússins skorið niður um um 8,9%.
- Á Patreksfirði er niðurskurður sjúkrahússins um 8,7%.
Þessi grófi niðurskurður er langt umfram það sem aðrar heilbrigðisstofnanir þurfa að reyna. Á sama tíma aukast útgjöld aðalskrifstofu heilbrigðisráðuneytis um 8,4%, þó svo að búið sé að flytja stóran hluta verkefna frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytis. Hvar er niðurskurðarhnífurinn þar?
Þetta eru skýr skilaboð frá vinstri ríkisstjórninni, sem kennir sig við velferð, að skerða eigi þjónustu við sjúklinga og íbúa á landsbyggðinni en auka uppbyggingu á skrifstofum í Reykjavík. Þessi svokallaða velferð eru að sjálfsögðu öfugmæli. Það er a.m.k. ekki velferð fyrir alla, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.
Ásbjörn Óttarsson, 1. þingmaður, NV-kjördæmis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.