Norðlendingar sleikja ekki ljósastaura
Það kom upp skondin umræða á Alþingi í gær þegar Illugi Gunnarsson alþingismaður vitnaði í Feyki.is og las m.a. upp fyrirsagnir á vefmiðlinum áður en hann vitnaði í frétt af Ásmundi Einari Daðasyni alþingismanni. Gunnar Bragi Sveinsson kom í kjölfarið og vildi koma því til skila að norðlendingar sleiktu ekki ljósastaura.
Verið var að ræða störf þingsins þegar Illugi sté í pontu og sagði: „Frú forseti. Á þeim ágæta vefmiðli feykir.is birtust nokkrar fréttir nýverið og á milli fréttanna „Sauðfjárbændur mótmæla“ og „Í dag er ekki góður dagur til að sleikja ljósastaura“ birtist frétt sem lætur ekki mikið yfir sér, en þó: „Ásmundur Einar ætlar að gera Samfylkingunni lífið leitt.“ Svo hefst aðalinntak ræðu Illuga en það eru ummæli Ásmundar Einars á opnum fundi VG á Sauðárkróki nýlega sem Feykir birtir.
Skömmu síðar kom Gunnar Bragi í pontuna og sagði: „Virðulegi forseti. Ég er með smááhyggjur af orðum hv. þm. Illuga Gunnarssonar áðan varðandi það að við sem búum á útbreiðslusvæði Feykis séum í því að sleikja ljósastaura varðandi þær fréttir sem hann hafði hér uppi. Það er þó ekki þannig, ég vil koma því á framfæri.
Tilurð fréttarinnar af hinum hættulega leik að sleikja ljósastaura er þannig til komin að frost var úti og ljósastaur fyrir utan skrifstofu Feykis vel hrímaður. Höfundur fréttarinnar hafði reynslu af því sem krakki að festa tungu sína við frosinn járnstaur og vildi af sínum mikla kærleik forða öðrum frá því að lenda í sömu aðstæðum. Fréttahaukurinn bjóst samt ekki við að þetta yrði rætt á hinu háa Alþingi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.