Norðan bylur í Fljótum
Í Fljótum lítur vetur konungur nú í kaffi - sem og fleiri gestir, segir Arnþrúður Heimisdóttir í Fljótum. Undanfarið hefur verið töluvert um útafkeyrslur í sveitinni, í hálku og slabbi, en nú hefur snjórinn bæst vð. Skólahaldi aflýst í dag vegna veðurs.
Þungfært varð um sveitina á sunnudag svo ekki komust öll börn í skóla og leikskóla í gær. Nokkuð var um að bílar yrðu fastir í gærmorgun eða einfaldlega komust ekki um sveitina.
Mikil lausamjöll er í sveitinni og þegar rok var í veðurspánni leist okkur ekki á blikuna. Í dag var von á góðum gesti í Grunnskólann að Sólgörðum, en þá átti kennari að koma með marga kassa af tæknilegói og kenna nemendum (og kennurum vonandi líka) á dýrindin, og bjuggust menn við mikilli hönnun og nýsköpun hjá ungu kynslóðinni. Margir eiga töluvert af legói sem hefur safnast gegnum árin, svo það verður svo spennandi að sjá hvort ekki verði reynt aftur þegar storminn hefur lægt, segir Arnþrúður Heimisdóttir í norðanbyl í Fljótum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.