Nóg um að vera á Prjónagleðinni um helgina
Prjónagleðin verður haldin um helgina á Blönduósi þar sem allir eru velkomnir, sérstaklega prjónafólk. Hátíðin stendur frá föstudeginum 9. – 11. júní en hitað verður upp í kvöld í Apótekarastofunni að Aðalgötu 8. Prjónagleðin er fyrir alla sem hafa einhvern snefil af áhuga á prjónaskap og skemmtilegum viðburðum, segir Svanhildur Pálsdóttir, viðburðastjóri Prjónagleðinnar.
Prjónagleðin er prjónahátíð sem haldin er á Blönduósi aðra helgina í júní árlega og er markmið hennar frá uppaf verið að sameina prjónafólk og skapa því vettvang til þess að hittast og miðla prjónasögum, nýjum hugmyndum og aðferðum, gömlum hefðum og síðast en ekki síst prjónagleðinni í öllum sínum fjölbreytileika. Feykir sendi Svanhildi viðburðastjóra nokkrar spurningar varðandi Prjónagleðina í ár.
„Veistu að ég hef þá trú að Prjónagleðin verði skemmtilegasta bæjarhátíðin sem haldin verður í sumar. Dagskráin er að venju mjög fjölbreytt og áhugaverð og við finnum fyrir mjög miklum áhuga og meðbyr með hátíðinni. Veðurspáin er líka ljómandi góð og það skemmir ekki fyrir.“
Danska prjónakonan og hönnuðurinn Lene Holme Samsøe verður gestur hátíðarinnar að þessu sinni og segir Svanhildur það vera mikinn heiður fyrir skipuleggjendur hátíðarinnar að hún skuli taka þátt í Prjónagleðinni.
„Hún mun setja svip sinn á hátíðina þar sem hún kennir á nokkrum námskeiðum, verður með vinnustofu fyrir sætaferðakonur, fyrirlestur á opnunarkvöldinu og áritar bækur sínar á Garntorginu. Námskeiðin eru hryggjarstykkið í Prjónagleðinni og þau eru að seljast eins og heitar lummur. Uppselt er á þau mörg, en þó má enn finna laus pláss fyrir áhugasama. Námskeiðin verða alls konar; m.a. í prjóni, hekli, tufting, orkeringu og spuna. Það er mjög gaman að segja frá því að nú verða námskeið í TextílLabi Textílmiðstöðvarinnar, bæði í tufting sem og á stafrænu prjónavélina Kniterate sem er sú eina sinnar tegundar á Íslandi.“
Svanhildur segir að einnig verði boðið upp á nokkra fyrirlestra t.d. um lettneskar vettlingahefðir og svo mun textíllistakonan Tinna Þórudóttir Þorvaldar fjalla um litina og lífið í sínum fyrirlestri.
Karlar prjóna
Á Prjónahátíðinni verður haldinn viðburður sem nefnist Karlar prjóna í samstafi við Pétur Oddberg Heimisson sem stundum er kallaður Prjóna Pétur. Þar gefst körlum kostur á að koma og fá leiðsögn og kennslu í prjónaskap hjá Pétri sem er reynslumikill prjónari, að sögn Svanhildar. „Við hvetjum alla karla sem eiga þann draum að læra að prjóna eða rifja upp handtökin sem þeir lærðu í grunnskóla að bretta upp ermarnar og mæta. Það verða prjónar og garn á staðnum og það kostar ekkert inn á viðburðinn,“ útskýrir Svanhildur en viðburðurinn verður haldin á Hótel Blönduósi.
„Garntorg Prjónagleðinnar fer fram í Íþróttamiðstöðinni. Þar munu yfir 20 aðilar selja vörur sínar, garn og allt sem prjónaskap tilheyrir. Áskaffi góðgæti mun selja veitingar á Garntorginu og þar verður mjög stórt og huggulegt svæði þar sem hægt verður að setjast með prjónana í rólegheitunum, spjalla og fylgjast með mannlífinu á torginu. Ýmsar sýningar verða á Garntorginu, m.a. verða þau verk sem bárust í hönnunar – og prjónasamkeppni hátíðarinnar til sýnis auk sýningar á lettneskum vettlingum, prjónaskap Höllu Ármannsdóttur og ævintýralegum hekluðum búningum. Á Garntorginu verður einnig tóvinnusvæði og við hvetjum spunafólk til að mæta með rokkana sína, snældur og kamba og leyfa gestum og gangandi að fylgjast með tóvinnunni. Að þessu sinni gefst gestum einnig kostur á að grípa í að sauma í Vatnsdælurefilinn í Kvennaskólanum og að kynna sér starfsemi TextílLabs Textílmiðstöðvarinnar. Prjónamessan er orðin fastur liður á Prjónagleðinni sem og prjónagangan og opið hús í Ullarþvottastöð Ístex. Það verður sem sagt nóg um að vera alla helgina.“
Nú er enginn að hugsa um Covid lengur, búist þið við fjölda manns?
„Já, við erum mjög bjartsýn á þátttökuna. Við erum búin að selja hátt í 200 sæti á námskeið og eigum von á sætaferð úr Reykjavík auk þess sem fjöldi fólks leggur leið sína til okkar eða kemur við á hátíðinni ef það á leið um Blönduós. Við erum alla vega tilbúin til að taka á móti öllum þeim sem eru forvitnir eða hafa áhuga á prjónaskap, garni og allri handavinnu og textíl almennt.“
Eins og Svanhildur nefnir er boðið upp á sætaferð úr borginni og það kann fólk vel að meta.
„Þessi hugmynd um sætaferð frá Reykjavík kom upp á hátíðinni í fyrra og við ákváðum að láta á hana reyna í ár. Og það er skemmst frá því að segja að það er uppselt í prjónarútuna, 40 prjónakonur sem alls ekki vilja missa af Prjónagleðinni ætla að skella sér í dagsferð á Blönduós þann 10. júní, það er náttúrulega alveg geggjað.“
Aðspurð um hvaða fólk það sé sem sæki slíka hátíð segir Svanhildur að Prjónagleðin sé fyrir alla sem hafa einhvern snefil af áhuga á prjónaskap og skemmtilegum viðburðum, á hvaða aldri sem er, á hvaða getustigi í prjónaskap sem er og hvaðan sem er. „Konur á öllum aldri eru mikill meirihluti gesta, það kemur svo sem engum á óvart en við viljum svo gjarnan sjá öll sem prjóna á Prjónagleðinni.“
Lene Holme Samsøe heimsækir hátíðina, hver er hún og hvernig kom það til að hún verður á svæðinu?
„Eins og áður sagði er Lene Holme Samsøe dönsk prjónakona og prjónahönnuður. Hún hefur gefið út mjög mikið af uppskriftum og prjónabókum og ég held að langflestir prjónarar hérlendis hafi prjónað eitthvað eftir hana, enda hafa flestar hennar bækur verið þýddar á íslensku. Þó svo að Lene Holme sjálf sé ekki mikið í sviðsljósinu er hún gríðarstórt nafn í prjónaheiminum og þekkt fyrir sígilda og fágaða hönnun þar sem einfaldleiki og áhugaverð smáatriði gera hverja flík einstaka. Það er því mikill fengur fyrir íslenskt prjónafólk að fá hana á Prjónagleðina, þar sem hún mun taka virkan þátt í hátíðinni.
Okkur hefur dreymt um að fá þekktan erlendan gest, prjónastjörnu, á hátíðina í nokkur ár og vorum svo heppin að fá styrk frá Uppbyggingarsjóði SSNV til þess að hjálpa okkur við að láta þann draum rætast.“
Í lokin vill Svanhildur hvetja alla sem prjóna á Norðurlandi vestra til þess að fá sér bíltúr á Blönduós um næstu helgi og kíkja inn á Garntorgið í Íþróttamiðstöðinni, þar sem aðgangur er ókeypis. Rölta á milli sölubásanna og skoða sýningarnar sem eru á svæðinu, fá sér hressingu á kaffihúsinu og sitja svo og prjóna í góðum félagsskap.
„Í mínum huga hljómar þetta eins og uppskrift að fullkomnum degi. Laugardaginn 10. júní er líka alþjóðlegi prjónað á almannafæri dagurinn, þannig að það er alveg tilvalið að slást í hópinn á Blönduósi og taka þátt í honum.
Það er svo gaman og dýrmætt að geta sótt svona viðburð í næsta nágrenni og það er líka svo mikilvægt fyrir okkur sem stöndum fyrir viðburðum sem þessum, að heimafólk og íbúar nágrannabyggðalaga styðji við viðburðinn með því að mæta og taka þátt. Þessi hátíð er alveg jafn mikið fyrir okkur sem búum hér á svæðinu eins og þá sem koma lengra að. Þess vegna vonast ég til þess að sjá ykkur sem allra flest um helgina á Prjónagleðinni.“
Dagskrá hátíðarinnar og ýmsar upplýsingar um hana má finna á www.textilmidstod.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.