Nóg framundan hjá körfuboltaköppum Tindastóls
Meistaraflokkur Tindastóls í körfubolta hefur þekkst boð Þórsara á Akureyri um að taka þátt í Greifamótinu sem er árlegt æfingamót þeirra Akureyringa, en það verður haldið dagana 11. og 12. september næstkomandi. Helgina þar á undan mun lið Tindastóls taka þátt í móti á Ísafirði og því í nógu að snúast hjá körfuboltaköppunum.
Leikjadagskráin liggur ekki fyrir á þessu stigi en búast má við að 2-3 úrvalsdeildarlið auk Tindastóls taki þar þátt.
Eins og áður hefur komið fram ætlar meistaraflokkurinn að taka þátt í æfingamóti á Ísafirði 4. og 5. september og verða þar leiknir þrír leikir gegn 1. deildarliðunum Þór Ak, Val og KFÍ. "Því miður komumst við ekki með okkar allra sterkasta lið þangað þar sem einhverjir leikmenn eiga ekki heimangengt vegna vinnu sinnar," sagði Karl Jónsson þjálfari, en bætti við að mótið væri frábært tækifæri fyrir hann til að skoða aðra leikmenn úr þeim stóra æfingahópi sem nú er að æfa.
Nánar á Tindastóll.is >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.