Nemendur gera það gott
Nemendur á námskeiðinu Hátíðir og viðburðir á Hólum eru þegar farnir að reyna fyrir sér í atvinnulífinu. En tveir nemendur, þau Sif Helgadóttir og Geir Gígja tóku að sér að sjá um skipulagningu og framkvæmd veislu fyrir starfsmenn DHL. Hátíðin var haldin í tilefni af 40 ára alþjóðlegu afmæli DHL.
Eftir mikla skipulagningu og undirbúningsvinnu var komið að viðburðinum. Hann hófst með fordrykk og á meðan á honum stóð gekk Daníel töframaður um á milli gesta og sýndi þeim hreint ótrúlega töfrabrögð. Grillaður var svo dýrindis matur og á meðan á matnum stóð mætti Karl Örvarsson og var með eftirhermur og gamanmál. Lokaatriðið var svo Gunnar Ólason og Sigurjón Brink sem spiluðu og sungu undir dansi.
Atli Einarsson, sölu- og markaðsstjóri DHL segir svo:
-Við hjá DHL erum Sif og Geir mjög þakklát fyrir vel unnið starf, þau komu með góðar hugmyndir í undirbúningsferlinu og sáu alfarið um að kvöldið gekk snuðrulaust fyrir sig þannig að við starfsmennirnir gátum skemmt okkur án þess að hafa neinar áhyggjur. Kvöldið heppnaðist gríðarlega vel, allir voru mjög ánægðir og það er ekki síst þeim Sif og Geir að þakka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.