Nám og íþróttaiðkun

Það eru engin ný sannindi að góður námsárangur og heilbrigð íþróttaiðkun haldast í hendur. Þess eru fjölmörg dæmi að afreksfólk í íþróttum er jafnframt afreksfólk í námi. Ekki er ósennilegt að sá sjálfsagi sem íþróttamaðurinn þarf að temja sér til að ná árangri nýtist honum einnig í námi.

Það er óvíða sem aðstaða til iðkunar íþrótta er jafn góð og á Sauðárkróki, þó auðvitað megi gera gott betra.  Þetta hefur komið glöggt  í ljós á þeim landsmótum sem haldin hafa verið í Skagafirði þar sem keppnisaðstaða í ólíkum íþróttagreinum er innan göngufæris og tjaldstæðin nánast í miðju keppnissvæðisins.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að Körfuboltadeild Tindastóls hefur átt góðu gengi að fagna í vetur.  Að baki þessarar velgengni eru m.a. gott bakland liðsins, góð æfingaaðstaða, góðir leikmenn og góð þjálfun, en liðið hefur leikið undir styrkri stjórn Israels Martins Conception, sem jafnframt kennir við körfuboltaakademíu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, en hún er hluti af íþrótta- og tómstundabraut skólans.

Það hefur vakið athygli hve hátt hlutfall leikmanna eru ungir og efnilegir íþróttamenn, sem allir stunda nám við körfuboltaakademíu skólans auk þess að stunda annað nám, ýmist til stúdentsprófs eða til starfsréttinda. Í þessu sambandi má nefna þá Ingva Ingvarsson, Pétur Birgisson, Viðar Ágústsson, Hannes Inga Másson, Sigurð Pál Stefánsson, Finnboga Bjarnason og fleiri.  Þessi góði árangur nær ekki aðeins til karlkyns íþróttamanna því stúlkur sem sótt hafa körfuboltakademíuna hafa náð frábærum árangri. Er þar skemmst að minnast þess að Linda Þórdís Róbertsdóttir mun keppa með unglingalandsliði Íslands á Norðurlandamóti sem haldið verður í Svíþjóð í maí, en Bríet Lilja Sigurðardóttir var einnig valin í æfingahóp unglingalandsliðsins.  Hér er kærkomið tækifæri fyrir ungt fólk af báðum kynjum til að fá fyrsta flokks tilsögn og markvissa þjálfun í körfubolta.

Góður árangur á ekki einungis við um körfubolta.  Um páskana stunduðu 9 frjálsíþróttamenn æfingar í Atlanta í Bandaríkjunum, en í þeirra hópi eru nokkrir fremstu íþróttamenn landsins sem jafnframt stunda nám við FNV. Má þar nefna, að öðrum ólöstuðum, Íslandsmeistarana Jóhann Björn Sigurbjörnsson og Þórönnu Ósk Sigurjónsdóttur auk annarra frábærra íþróttamanna sem allir stunda nám við skólann eða hafa stundað þar nám.

Hér hefur aðeins verið tæpt á körfubolta og frjálsíþróttum, en ekki verið minnst á aðrar íþróttir á borð við fótbolta, golf, skíði, sund og hestamennsku sem einnig lifa góðu lífi í Skagafirði og tengjast skólanum með beinum eða óbeinum hætti.  Þær ágætu íþróttagreinar eru efni í aðra grein.

Af þessari upptalningu má vera ljóst að í Skagafirði getur íþróttafólk á öllum aldri með góðu móti samtvinnað nám og starf við íþróttaiðkun og þjálfun við bestu aðstæður.  Fjöldi fólks á öllum aldri tekur virkan þátt í almenningsíþróttum t.d. skokki, sundi eða einfaldlega gönguferðum og útivist í fjölbreyttu umhverfi þar sem ávallt er stutt í fallega náttúru.

Fólk sem hyggur á nám í framhaldsskóla ætti að skoða þá möguleika sem nám við Fjölbrautskóla Norðurlands vestra býður upp á í samhengi við íþróttaiðkun og þjálfun á vegum U.M.F. Tindastóls. Fyrir þá sem ekki búa á Sauðárkróki er í boði að dvelja á notalegri og hagkvæmri heimavist sem nýbúið er að taka í gegn og endurnýja.  Loks má benda á nýja íþrótta- og tómstundabraut sem verður í boði fyrir nýnema næsta haust, en hún er hluti af afar fjölbreyttu námframboði sem ætti að hæfa flestum þeim sem hyggjast ná langt í námi, starfi, íþróttum og heilbrigðum lífsstíl.

Þorkell V. Þorsteinsson aðstoðarskólameistari FNV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir