Naglaeyðari í Hellinum
Hann var hreint út sagt ótrúlegur leikur ÍR og Tindastóls sem fram fór í Hertz-hellinum í Breiðholtinu í gærkvöldi. Stólarnir höfðu náð 13 stiga forystu í þriðja leikhluta en heimamenn voru snöggir að jafna og áttu síðan sigurinn vísan en þremur stigum yfir klúðruðu þeir fjórum vítaskotum í röð þegar 7-8 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma og Stólarnir jöfnuðu með ævintýraþristi Alawoya. Í framlengingunni voru Tindastólsmenn sterkari og fögnuðu sætum sigri um leið og þeir skrúfuðu tappann á leiðinda taphrinu. Lokatölur 85-90.
Menn virkuðu frekar stirðir í sókninni eftir langt landsleikjahlé en það var PJ Alawoya sem dró vagninn fyrir okkar menn í byrjun. Hann gerði fyrstu níu stig Tindastóls og staðan 9-9 eftir fimm mínútna leik en staðan var 15-14 fyrir ÍR að loknum fyrsta leikhluta. Áfram var jafnræði með liðunum í byrjun annars leikhluta en tveir þristar í röð frá Viðari komu Stólunum í gírinn og í kjölfarið gerði Danero fjögur stig og staðan 22-29. Munurinn var yfirleitt 5–7 stig fram að hléi og eftir stökkskot frá Alawoya var staðan 32-39 í hálfleik.
Stólarnir héldu áfram að bæta í í byrjun þriðja leikhluta og eftir fimm stig í röð frá Dino, og staðan 33-46, þá tók Borce, þjálfari ÍR, leikhlé og það skilaði tilætluðum árangri. ÍR-ingar hertu á vörninni og gerðu sjö stig í röð og komu sér aftur inn í leikinn. Tindastólsmenn voru ítrekað sendir á vítalínuna og náðu níu stiga forystu, 44-53, eftir að Friðrik setti niður tvö. Þá náðu ÍR-ingar aftur góðum kafla og á síðustu tveimur og hálfri mínútunni gerðu þeir tíu stig gegn einu Stólanna og jöfnuðu því leikinn 54-54.
Heimamenn komust fjórum stigum yfir í byrjun fjórða leikhluta en tveir þristar frá Pétri snéru stöðunni við og næstu mínútur var allt í járnum en Stólarnir þó yfirleitt skrefinu á undan. Síðustu þrjár mínútur leiksins voru hrikalega spennandi og hófst sá kafli á því að brotið var á Brilla í 3ja stiga skoti og setti hann öll vítin niður, 68-72. Matti gerði þrist fyrir ÍR og næstu körfur voru ÍR-inga sem komust yfir 72-75 þegar tæp mínúta var eftir en í millitíðinni hafði Pétur klikkað á tveimur vítum. Alawoya minnkaði muninn í eitt stig með íleggju en Kevin Capers svaraði með tveimur vítum fyrir ÍR þegar 37 sekúndur voru eftir og staðan 77-74. Brilli reyndi 3ja stiga skot þegar um tíu sekúndur lifðu en klikkaði. Stólarnir brutu strax á heimamönnum og sendu þá á vítalínuna þegar átta sekúndur voru eftir og staðan í raun sú að ÍR þurfti aðeins eitt stig til að vinna leikinn. Nú ákváðu körfuboltaguðirnir geggjuðu hins vegar að skemmta sér pínu á kostnað ÍR-inga og ekki síst stuðningamannaliðs þeirra sem var farið að fagna sigri. Gerard Robinson klikkaði á báðum vítum sínum en Siggi Þorsteins kom heimamönnum til bjargar og náði frákastinu. Helgi Rafn braut á honum og nú voru sjö sekúndur eftir og Stólarnir tóku leikhlé. Þegar Siggi fór á vítalínuna þá brást honum bogalistin í báðum skotum, Brilli náði frákastinu og óð upp völlinn, sendi á Viðar sem kom boltanum á Alawoya sem tók fallegasta 3ja stiga skot sem sést hefur lengi og boltinn sveif niður um hringinn um leið og flautan skar hjörtu Breiðhyltinga í búta. Staðan 77-77 og framlenging í Hellinum.
Vonbrigðin og dramað virtist setja heimamenn út af laginu. Þeir tóku mörg ótímabær og vond skot í framlengingunni og Tindastóll, með Pétur í broddi fylkingar, náðu yfirhöndinni á ný. Tveir stórir þristar frá Danero hafa sennilega ekki minnkað spælingu ÍR-inga og svo fór að lið Tindastóls vann leikinn, 85-90, og náðu loks í sigur í Dominos-deildinni eftir umtalsverða þrautagöngu það sem af er ári.
PJ Alawoya átti stjörnuleik í liði Tindastóls, gerði 26 stig og tók níu fráköst. Skotnýtingin hjá Pétri var kannski ekki til að hrópa húrra yfir og sjö af 13 vítum niður er óvænt. Kappinn gerði engu að síður stórar körfur í leiknum og endaði með 18 stig, sex stoðsendingar og tók að auki flest fráköst Tindastólsmanna eða tíu stykki. Að auki fiskaði hann tíu villur á heimamenn. Magnaður drengurinn. Dino og Danero skiluðu báðir ágætu framlagi og þá steig Viðar að venju varnardansinn en skilaði líka átta stigum. Brilli náði sér ekki á strik í sókninni en það er ekki ónýtt að hafa svona reynslubolta með sér í liði. Að leik loknum mátti heyra á Tindastólsmönnum að andinn í hópnum væri fínn í kjölfar tiltektar í byrjun febrúar en eitthvað virtist mórallinn hafa átt undir högg að sækja framan af ári. Nú er vonandi að þessi dramatíski sigur gefi liðinu byr undir báða vængi í framhaldinu og hafi kveikt á stuðinu.
Næsti leikur Tindastóls er hér heima á fimmtudaginn en þá kemur lið Breiðabliks í heimsókn en það féll endanlega í gær.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.