Myndlistarsýning opnuð í Miðgarði í dag
Myndlistarsýning Varmahlíðarskóla verður opnuð í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð kl. 14:30 í dag. Til sýnis verða verk eftir nemendur í 1.-10. bekk skólans en um er að ræða málverk, teikningar, klippiverk og ljósmyndir sem sendar voru í ljósmyndakeppni nemenda á unglingastigi. Sýningin stendur yfir Sæluviku og lýkur 7. maí. Sýningarstjóri er Íris Olga Lúðvíksdóttir myndlistarkennari skólans.
Íris Olga segir markmiðið með sýningunni vera að kynna fyrir gestum og gangandi, og ekki síst nemendum sjálfum, hvað hefur átt sér stað í myndmennt í vetur. „Ekki nein ein áhersla hefur verið í myndmennt á tímabilinu en flestir hópar æft sig í meðferð lita og litablöndun. 7. bekkur, sem klárar skyldunámið í myndmennt nú í vor, rétt lauk við lokaverkefnið, dúkristu, sem er eflaust tímafrekasta verkefnið sem ég legg fyrir námshóp en algjörlega þess virði eins og sést á verkunum þeirra.“
Þó að nemendur á unglingastigi séu ekki í myndmennt, og ekki hafi verið boðið upp á myndlistarval í vetur, þá á þessi hópur einn fulltrúa á sýningunni, Jónu Karitas Guðmundsdóttur, sem góðfúslega lánaði nokkur verk sín.
Sem fyrr segir var efnt til ljósmyndakeppni hjá 8.-10. bekkingum með það markmið að elstu nemendur skólans legðu eitthvað til á sýninguna. Þemað var vor og mátti senda inn allt að þrjár myndir. „Myndlist var ekki kennd á unglingastigi Varmahlíðarskóla í vetur en allir nemendur eiga þó snjallsíma og margir orðnir færir að taka ljósmyndir á þá eins og myndirnar sýna,“ segir Íris Olga. „Rétt rúmlega 40 myndir bárust í keppnina sem settar voru nafnlausar í Google albúm og sendar dómurunum, Gunnhildi Gísla og Óla Arnari Brynjarssyni. Þau völdu svo þrjár myndir sem þeim fannst skara fram úr,“ segir Íris Olga.
Myndun ehf sem sá um að prenta myndirnar þrjár, sem þóttu bestar, á striga en það er Fisk Seafood sem styrkti keppnina.
- - - - -
Hér að neðan eru þær átta myndir sem dómnefnd valdi fyrst úr þeim rúmlega 40 myndum sem bárust í ljósmyndakeppnina. Þrjár bestu myndirnar voru síðan valdar úr þessum átta. Dómnefnd hafði m.a. í huga myndbyggingu, hvort myndin sé falleg og vel tekin og hvort að baki búi skemmtileg hugmynd. Við látum ógetið hvaða þrjár myndir þóttu bestar en kannski geta lesendur myndað sér skoðun og kíkt svo á sýninguna og athugað hvort þeir hafi verið sammála vali dómnefndar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.