Murr með þrennu á Seltjarnarnesinu
Stólastúlkur léku þriðja leik sinn í Lengjubikarnum í gærkvöldi þegar þær sóttu lið Gróttu heim á Vivaldivöllinn á Seltjarnarnesinu. Heimastúlkur voru yfir í hálfleik en þrenna frá Murielle Tiernan á korterskafla í síðari hálfleik lagði grunninn að 2-3 sigri Tindastóls.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fór leikurinn fram í skítaveðri eins og stundum áður í höfuðborginni. Diljá Mjöll Aronsdóttir kom Gróttu yfir á 26. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Það var síðan á 62. mínútu sem Murr jafnaði leikinn og hún kom Stólastúlkum yfir sex mínútum síðar. Hún gerði síðan þriðja markið á 76. mínútu en Rakel Lóa Brynjarsdóttir minnkaði muninn fyrir Seltirninga í uppbótartíma. Lokatölur því 2-3 fyrir Tindastól og hafa stelpurnar unnið alla þrjá leiki sína í Lengjubikarnum til þessa.
Stelpurnar héldu í morgun í æfingaferð til Spánar þar sem þær dveljast í um vikutíma. Þær eiga eftir að spila einn leik í Lengjubikarnum, gegn Fjölni úr Grafarvogi, en þar er toppsæti riðilisins í húfi því Fjölnisstúlkur hafa unnið báða sína leiki. Leikur Tindastóls og Fjölnis fer fram 14. apríl á gervigrasinu á Króknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.