Murr á skotskónum í sigri á Grindvíkingum
Tindastóll og Grindavík mættust í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar á Króknum í kvöld. Stólastúlkur náðu snemma forystunni og voru mun sterkara liðið í fyrri hálfleik en gestirnir pressuðu töluvert í síðari hálfleik og heimaliðinu gekk verr að halda boltanum. Það kom þó ekki að sök því undir lokin bætti Murr við öðru marki sínu í leiknum og lokatölur því 2-0.
Það voru í raun fínar aðstæður fyrir fótboltaleik á Króknum þó hitastigin hafi ekki verið mörg. Það hreyfði vart vind og gervigrasvöllurinn iðagrænn að vanda. Það var augljóst strax í upphafi leiks að Stólastúlkum hafði verið uppálagt að halda boltanum betur innan liðsins og láta reyna meira á stutta spilið. Þessi aðferð var fljót að bera ávöxt því Murr kom liði Tindastóls yfir eftir tíu mínútna leik með góðu marki eftir að vörn gestanna hafði verið opnuð upp á gátt eftir frábært spil. Lið Tindastóls var mun sterkara fyrsta hálftímann og hefði átt að bæta við mörkum en úrslitasendingin skilaði sér ekki rétta leið.
Lið Grindavíkur kom öflugt til leiks í síðari hálfleik og minnti leikurinn um margt á bikarleikinn við HK hér heima um síðustu helgi. Munurinn var þó sá að það var ekkert slugs í varnarleiknum að þessu sinni og gestirnir fengu varla færi; helst tilraunir utan teigs og fyrirgjafir eftir hornspyrnur sem skiluðu litlu. Leikurinn opnaðist fyrir sókn Stólastúlkna þegar á leið og gestirnir þurftu að taka meiri sénsa. Murr losnaði aðeins úr gjörgæslunni og gat farið að spretta upp kantana og nýtt hraða sinn og styrk. Eftir eina slíka rispu sem endaði með skoti sem Lauren Houghton í marki Grindavíkur varði uppskáru heimastúlkur hornspyrnu á 88. mínútu. Bergljót náði að skall hornið inn að markteig og þar rak Murr tána í boltann og stýrði í markið. Eftir það áttu Grindvíkingar ekki séns og fyrsti sigur Stólastúlkna í Lengjudeildinni þetta sumarið staðreynd.
Lið Tindastóls var þannig skipað að Amber var í markinu og stóð venju samkvæmt fyrir sínu. Í vörninni voru síðan Bryndís fyrirliði, Arna, Sólveig Birta og María Dögg. Á miðjunni voru Hannah, Lara Margrét og Hrafnhildur og frammi Murr, Hugrún og Aldís. Í síðari hálfleik komu þær Bergljót og Anna Margrét inn á og á lokasekúndunum fengu Birna María og Eyvör að spretta úr spori.
Í heildina var sigurinn sanngjarn því lið Tindastóls skapaði sér betri færi í leiknum. Það gekk þó sem fyrr segir brösuglega að halda í boltann framan af síðari hálfleik og gestirnir voru duglegir að vinna seinni boltann. Það er skammt stórra högga á milli hjá liði Tindastóls því á miðvikudaginn bruna þær í Árbæinn og etja kappi við lið Fylkis sem töpuðu í kvöld 1-3 gegn HK. Á sunnudag kemur svo lið ÍR í heimsókn á Krókinn í annarri umferð Mjólkurbikarsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.